Það þarf að fara meira en þrjátíu ár aftur í tímann til að finna lið í ensku úrvalsdeildinni sem var búið að stinga meira af eftir svo fáa leiki.
Lið Manchester United, undir stjórn Sir Alex Ferguson, byrjaði svona vel á 1993-94 tímabilinu og reyndar aðeins betur.
United var þá líka með 31 stig af 36 stigum mögulegum og sextán mörk í plús eins og Liverpool í dag.
Það þýddi hins vegar að United var þá með níu stiga forskot á næsta lið sem var Norwich. Síðan þá hefur ekkert lið í ensku úrvalsdeildinni verið með meiri forystu á þessum tímapunkti á leiktíðinni.
Liverpool er núna með átta stiga forskot á ríkjandi meistara í Manchester City. Það er jafnmikið forskot og bæði lið Manchester City frá 2017-18 og lið Liverpool frá 2019-20. Bæði þau lið unnu enska meistaratitilinn.
1993-94 liðið hjá United endaði sem enskur meistari með 92 stig en í öðru sætinu var Blackburn Rovers með átta stigum minna.
Eric Cantona var í aðalhlutverki í þessu United liði með átján deildarmörk en Ryan Giggs skoraði 13 mörk og Mark Hughes var með 12 mörk.
Eftir tólf leiki haustið 1993 hafði Cantona skorað fjögur mörk en Íslandsvinurinn Lee Sharpe og Mark Hughes voru markahæstir með fimm mörk.