Nóvember, hinn mikli kosningamánuður, er genginn í garð. Við Íslendingar kjósum til Alþingis þann 30. en augu heimsbyggðarinnar beinast kannski frekar að öðrum kosningum, forsetakosningum úti í Bandaríkjunum sem haldnar eru eftir aðeins þrjá daga.
Skoðanakannanir eru enn hnífjafnar og frambjóðendurnir Kamala Harris og Donald Trump eru á þeytingi um sveifluríkin á lokametrum kosningabaráttunnar. Sextíu og sex milljónir Bandaríkjamanna hafa þegar greitt atkvæði utankjörfundar í forsetakosningunum, sem haldnar eru á þriðjudag. Aldrei hafa fleiri utankjörfundaratkvæði verið greidd. Metið frá því í kosningunum 2020, sem haldnar voru í miðjum heimsfaraldri, hefur þar með verið slegið.
En hvað segja kjósendur? Fréttastofa fór á stúfana og tók nokkra bandaríska ferðamenn tali í miðborg Reykjavíkur. Tracy frá Maryland sagðist hikandi og hrædd í aðdraganda kosninganna. Hún kaus Kamölu Harris áður en hún fór með fjölskyldu sinni í frí til Íslands.
Elizabeth Eleanor Olsen frá Colorado var einnig nokkuð kvíðin. „Ég myndi frekar kasta mér fram af kletti en að kjósa Donald Trump,“ sagði hún.
Viðtöl við Tracy, Elizabeth og fleiri ferðamenn í fréttum Stöðvar 2 má horfa á í spilaranum hér fyrir neðan.