Al Nassr er nú þegar sex stigum á eftir ríkjandi meisturum Al Hilal í efstu deild Sádi-Arabíu þegar átta umferðum er lokið þrátt fyrir að liðið hafi ekki enn tapað leik. Það hefur hins vegar gert þrjú jafntefli á meðan Al Hilal hefur unnið alla átta leiki sína.
Það má því segja að Konungsbikarinn hafi verið eini raunhæfi möguleiki Al Nassr á bikar á leiktíðinni. Fyrir leik gærdagsins var búist við öruggum sigri Al Nassar þar sem Al Taawon er ekki eitt þeirra liða sem er í eigu PIF, fjárfestingasjóðs Sádi-Arabíu.
Þekktasta nafn liðsins fyrir þau sem fylgjast með evrópskri knattspyrnu er líklega Musa Barrow. Sá lék með Atalanta og Bologna á Ítalíu áður en hann hélt til Sádi-Arabíu. Á sama tíma var Aymeric Laporte í miðverðinum hjá Al Nassr, Marcelo Brozovic var á miðri miðjunni, Ronaldo fremstur og þá kom Sadio Mané inn af bekknum.
Cristiano Ronaldo missed a 96th-minute penalty as Al Nassr were knocked out of the Saudi King's Cup 😲#BBCFootball pic.twitter.com/dii74F1iN4
— Match of the Day (@BBCMOTD) October 30, 2024
Þrátt fyrir þessar stórstjörnur ásamt lunknum Brasilíumönnum þá tókst Al Nassr ekki að skora í leiknum. Besta færið fékk Ronaldo í uppbótartíma þegar vítaspyrna var dæmd. Hann þrumaði boltanum hins vegar yfir.
Waleed Al Ahmad reyndist hetja gestanna en hann skoraði það sem reyndist sigurmarkið þegar tæpar tuttugu mínútur lifðu leiks.