Erlent

Trump ræðst gegn Harris og beinir at­hygli að Rubio

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Trump fór mikinn í ræðu sinni í gær.
Trump fór mikinn í ræðu sinni í gær. AP/Marta Lavandier

Donald Trump virðist nú undirbúa sig undir það að Joe Biden muni mögulega stíga til hliðar og að varaforsetinn Kamala Harris verði forsetaefni Demókrata í hans stað.

Trump, sem hefur látið fara lítið fyrir sér síðustu viku, hefur hingað til veitt Harris litla athygli en réðist gegn henni í ræðu í gær og gerði meðal annars grín að hlátrinum hennar.

Forsetinn fyrrverandi þóttist hafa samúð með Biden, sem hann sagði illa farið með. Nú vildi Demókrataflokkurinn víkja honum til hliðar eftir 90 mínútna lélega frammistöðu.

„Það er skammarlegt hvernig þau koma fram við hann. En ég vorkenni honum ekki. Hann er mjög vondur maður,“ sagði Trump meðal annars. 

Trump varði síðan nokkrum mínútum í að gera lítið úr Harris og gerði því skóna að vanhæfni hennar til að sinna forsetaembættinu væri eina ástæðan fyrir því að Demókrataflokkurinn hefði ekki þegar látið Biden fjúka.

„Ef Joe hefði valið einhvern sem var jafnvel bara hálfvegis hæfur hefðu þeir vikið honum úr stólnum fyrir mörgum árum,“ sagði Trump.

Trump sakaði Demókrata um að villa um fyrir þjóðinni varðandi heilsu Biden og staðhæfði enn og aftur að af forsetakosningunum 2020 hefði verið „stolið“. Þá skoraði hann á Biden að mæta sér á golfvellinum.

Forsetinn fyrrverandi lét einnig að því liggja að hann væri búinn að gera upp hug sinn varðandi eigið varaforsetaefni og beindi athyglinni ítrekað að Marco Rubio, sem var meðal viðstaddra. 

Rubio er öldungadeildarþingmaður fyrir Flórída og fyrrverandi forsetaframbjóðandi.

Trump er sagður munu tilkynna ákvörðun sína fyrir landsþing Repúblikana, sem hefst á mánudaginn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×