Enski boltinn

Eig­endur Liverpool að kaupa franskt fé­lag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Henry sést hér á Anfield þegar Jürgen Klopp var kvaddur í vor.
John Henry sést hér á Anfield þegar Jürgen Klopp var kvaddur í vor. Getty/John Powell

Bandarískir eigendur Liverpool vilja eignast fleiri fótboltafélög og hafa nú beint sjónum sínum til Frakklands.

Fenway Sports Group fjárfestingahópurinn, sem á Liverpool, er langt komið með að kaupa meirihluta í franska félaginu Bordeaux.

Bordeaux hefur sent inn upplýsingar um söluna til eftirlitsstofnunarinnar DNCG, sem hefur yfirumsjón með fjármálum frönsku fótboltafélaganna.

Bordeaux hefur sex sinnum orðið franskur meistari en síðast vann félagið franska titilinn árið 2009.

Félagið er í fjárhagskröggum og þarf því á innspýtingu að halda. Liðið er í frönsku b-deildinni og endaði í tólfta sæti af tuttugu liðum á síðustu leiktíð.

Það er því verk að vinna að rífa félagið upp en það féll úr efstu deild vorið 2022 og er því að fara að spila sitt þriðja tímabil í næstefstu deild.

FSG hefur átt Liverpool síðan 2010.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×