Erlent

Ferða­maður fannst látinn og þriggja saknað á eyjum Grikk­lands

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Ferðamaður fannst látinn á strönd á eyjunni Mathraki, sem staðsett er nærri eyjunni Corfu. 
Ferðamaður fannst látinn á strönd á eyjunni Mathraki, sem staðsett er nærri eyjunni Corfu.  Getty

Bandarískur ferðamaður sem leitað var að síðan á fimmtudaginn fannst látinn á grískri eyju nærri eyjunni Corfu í gær. Tikynnt hefur verið um hvörf þriggja ferðamanna á grískum ferðamannaeyjum síðastliðna viku. 

Lík mannsins fannst á strönd á eyjunni Mathraki, sem er hundrað íbúa eyja vestan eyjunnar Corfu. Ferðafélagi mannsins tilkynnti um hvarf hans á fimmtudag en þá hafði ekki sést til hans í tvo daga. Nánari upplýsingar um manninn liggja ekki fyrir. 

Bylgja mannshvarfa og dauðsfalla ferðamanna virðist nú herja á grísku eyjarnar. Flestir, ef ekki allir  ferðamennirnir sem leitað hefur verið að eiga það sameiginlegt að hafa haldið af stað í göngu eða hjólatúr í miklum hita og ekki snúið aftur.

Á laugardag fannst lík 74 ára gamals hollensks ferðamanns í gili á eyjunni Samos. Hann hafði verið týndur í tæpa viku en fannst um þrjú hundruð metrum frá því svæði sem síðast hafði sést til hans. 

Sjónvarpslæknirinn Michael Mosley fannst látinn á Eyjunni Symi síðasta sunnudag. Talið er að hann hafi verið látinn í fjóra daga þegar hann fannst og hann hafi látist af náttúrulegum orsökum.

Á eyjunni Sikinos á eyjaklasanum Hringeyjum í Eyjahafi var á föstudaginn tilkynnt um hvarf tveggja franskra kvenna, 64 og 73 ára. Þeirra er enn leitað. Þá var tilkynnt um hvarf 59 ára gamals bandarísks ferðamanns á þriðjudaginn og stendur leit að honum enn yfir. 


Tengdar fréttir

Lést af náttúrulegum orsökum

Breski sjónvarpslæknirinn, Michael Mosley, sem fannst látinn í gær á grísku eyjunni Symi lést af náttúrulegum orsökum samkvæmt fyrstu krufningu sem var framkvæmd á líki hans í dag. 

Talið að lík Mosley sé fundið

Lík af manni hefur fundist í helli við grísku eyjuna Symi. Talið er að þar sé um að ræða breska sjónvarpsmanninn Michael Mosley sem hefur verið saknað síðan á miðvikudag.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×