Enski boltinn

Sonur Dannys Mills vann silfur á EM í frjálsum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
George Mills eftir úrslitin í fimm þúsund metra hlaupi á EM.
George Mills eftir úrslitin í fimm þúsund metra hlaupi á EM. getty/Silvia Lore

George Mills vann silfur í fimm þúsund metra hlaupi á EM í frjálsum íþróttum í gær. Einhverjir ættu að kannast við föður hans úr annarri íþrótt.

Mills er nefnilega sonur fótboltamannsins Dannys Mills sem lék meðal annars með Leeds United, Manchester City og enska landsliðinu.

Sonur hans fetaði ekki í fótspor hans heldur lagði langhlaupin fyrir sig. Í gær varð George annar í úrslitum í fimm þúsund metra hlaupi á EM í frjálsum íþróttum í Róm. Norðmaðurinn Jakob Ingebrigtsen varð hlutskarpastur.

George virtist þó ekkert himinlifandi með afraksturinn og fagnaði ekki að hafa fengið silfurmedalíuna.

„Þetta var það sem ég bjóst við af sjálfum mér. Mér finnst hálf skrítið að fagna á miðju tímabili,“ sagði George sem keppti einungis í sínu þriðja fimm þúsund metra hlaupi sínu á ferlinum í gær.

Danny Mills í baráttu við Eið Smára Guðjohnsen í leik í ensku úrvalsdeildinni um jólin 2002.getty/Michael Steele

George kom í mark á á þrettán mínútum og 21,38 sekúndum og var aðeins sekúndu á eftir Ingebrigtsen.

George tókst þó að keppa á Ólympíuleikvanginum í Róm, eitthvað sem faðir hans náði aldrei.

„Ég sat tvisvar á bekknum hérna með Leeds og hitaði upp á hlaupabrautinni. Við höfum því báðir hlaupið á þessari braut en hann náði aðeins lengra en ég! Við erum stolt fjölskylda í kvöld,“ sagði Danny.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×