Erlent

Segja á­rásir og að­gerðir Ísrael enn innan „rauðu línanna“

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Kirby sagði á blaðamannafundi í gær að aðgerðir Ísraelsmanna síðustu daga væru innan þess ramma sem Bandaríkjamenn hefðu sett.
Kirby sagði á blaðamannafundi í gær að aðgerðir Ísraelsmanna síðustu daga væru innan þess ramma sem Bandaríkjamenn hefðu sett. AP/Susan Walsh

Bandaríkjastjórn er ekki á því að full innrás Ísraelsmanna sé hafin í Rafah í suðurhluta Gasa og því hafi Ísraelsmenn ekki farið yfir svokallaðar „rauðar línur“ sem Bandaríkjamenn hafa dregið.

Þetta segir John Kirby, talsmaður Hvíta hússins í þjóðaröryggismálum, spurður út í árás Ísraelsmanna á sunnudag og fregnir þess efnis að Ísraelskir hermenn séu nú komnir í miðbæ Rafah á skriðdrekum. 

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði fyrr í þessum mánuði að hann mynri draga úr vopnasendingum til Ísraels ef herinn færi inn á þéttbýlustu svæði Rafah, þar sem mörg hundruð þúsund flóttamenn höfðu leitað skjóls. 

Bróðurpartur þeirra er nú aftur á flótta. 

Eldur kviknaði í tjaldbúðum í árásinni á sunnudag og að minnsta kosti 45 létu lífið.AP/Jehad Alshrafi

Kirby segir að hingað til hafi Ísrael ekki farið yfir strikið; enn sé um hnitmiðaðar aðgerðir að ræða og ekki breiðfylkingu hermanna. 

Að minnsta kosti 45 Palestínumenn létu lífið í árásinni á sunnudag, sem miðaði að því að fella háttsetta Hamas liða. Árásin varð hins vegar til þess að eldur kom upp í tjöldum flóttamanna. 

Kirby harmaði mannfallið en árásin skaraðist ekki á við það sem Biden forseti hefði áður sagt.


Tengdar fréttir

„Við höfum ekkert“

Ísraelskir hermenn óku í dag skriðdrekum inn í Rafah á Gasaströndinni. Þá voru skriðdrekar notaðir til að skjóta að tjaldbúðum vestur af borginni þar sem fólk á vergangi hafði komið sér fyrir. Minnst 21 féll í skothríðinni, samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum á Gasa.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×