Enski boltinn

Njósnarar Liverpool áttu að fylgjast með Koopmeiners en hrifust að öðrum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Éderson fagnar sigri Atalanta á Bayer Leverkusen í úrslitaleik Evrópudeildarinnar.
Éderson fagnar sigri Atalanta á Bayer Leverkusen í úrslitaleik Evrópudeildarinnar. getty/Jean Catuffe

Liverpool er byrjað að undirbúa hvað liðið ætlar að gera á félagaskiptamarkaðnum í sumar og horfir meðal annars til Evrópudeildarmeistara Atalanta.

Samkvæmt Tuttosport á Ítalíu sendi Liverpool njósnara til að fylgjast með Hollendingnum Teun Koopmeiners á dögunum. Þeir hrifust hins vegar meira af öðrum miðjumanni Atalanta og hann gæti verið á leið til Liverpool.

Það er Brassinn Éderson sem hefur leikið með Atalanta undanfarin tvö tímabil. Í vetur hefur hann leikið 52 leiki fyrir liðið og skorað sjö mörk. Éderson spilaði allan leikinn þegar Atalanta vann Bayer Leverkusen, 3-0, í úrslitum Evrópudeildarinnar í síðustu viku.

Koopmeiners þekkir vel til Arne Slot, verðandi knattspyrnustjóra Liverpool, en hann lék undir hans stjórn hjá AZ Alkmaar tímabilið 2019-20.

Líkt og Éderson hefur Koopmeiners átt gott tímabil með Atalanta en hann hefur skorað fimmtán mörk í 51 leik í vetur.

Atalanta sló Liverpool úr leik í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Ítalska liðið vann einvígið, 3-1 samanlagt.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×