Fótbolti

Orri Steinn full­komnaði dag ungs stuðningsmanns

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hinn sænski Viktor Claesson og Orri Steinn fagna eftir mark þess fyrrnefnda um helgina.
Hinn sænski Viktor Claesson og Orri Steinn fagna eftir mark þess fyrrnefnda um helgina. FCK

Landsliðsframherjinn Orri Steinn Óskarsson fullkomnaði dag ungs stuðningsmanns FC Kaupmannahafnar þegar hann hljóp til hans eftir leik helgarinnar til að gefa drengnum treyjuna sína.

Hinn 19 ára gamli Orri Steinn spilaði allan leikinn er FCK og Nordsjælland gerðu 1-1 jafntefli í lokaumferð dönsku úrvalsdeildar karla í fótbolta. Þar sem FCK hafði tapað tveimur leikjum í röð fyrir það var leikur helgarinnar um þriðja sætið frekar en það fyrsta.

Jafnteflið þýðir að FCK endar í 3. sæti og fer í umspil við Randers – liðið sem vann fallumspil efstu deildar – um sæti í forkeppni Sambandsdeildar Evrópu á næstu leiktíð.

Þrátt fyrir mikil vonbrigði með að ná aðeins jafntefli og skora ekki í leiknum þá sýndi Orri Steinn úr hverju hann er gerður þegar hann hljóp að stúkunni til að gefa undum aðdáanda liðsins treyju sína. 

Orri Steinn var inn og út úr liði FCK á leiktíðinni. Hann endaði hins vegar sem framherji númer eitt og skoraði alls sex mörk og gaf eina stoðsendingu í níu leikjum í umspilinu um meistaratitilinn. Alls hefur hann skorað 14 mörk í öllum keppnum á leiktíðinni og gefið 8 stoðsendingar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×