Erlent

Flytja hjálpar­gögn til Gasa í gegnum Kerem Shalom

Lovísa Arnardóttir skrifar
Venjulega fara stórir vöruflutningar í gegnum Kerem Shalom. Egyptar hafa samþykkt að hleypa vöruflutningabílum með hjálpargögn þar í gegn á meðan ekki er hægt að fara í gegnum Rafah landamærin.
Venjulega fara stórir vöruflutningar í gegnum Kerem Shalom. Egyptar hafa samþykkt að hleypa vöruflutningabílum með hjálpargögn þar í gegn á meðan ekki er hægt að fara í gegnum Rafah landamærin. Vísir/Getty

Vöruflutningabílar með hjálpargögn fengu í dag að fara inn á Gasa í gegnum Kerem Shalom landamærin samkvæmt nýju samkomulagi við Egyptaland. Óljóst er hvort mannúðarsamtök fái aðgang að hjálpargögnunum inn á Gasasvæðinu vegna áframhaldandi árása á staðnum.

Nærri ómögulegt hefur verið að koma hjálpargögnum inn á Gasasvæðið eftir að Ísraelar hófu árás á Rafah í upphafi mánaðar. Ísralar tóku yfir aðra hlið landamæranna í þessum mánuði. Egyptar hafa neitað að opna sína hlið Rafah landamæranna þar til hin hliðin er aftur í höndum Palestínumanna. Þeir samþykktu að beina umferðinni í aðra átt og í gegnum Kerem Shalom landamærin en allir stórir vöruflutningar fara yfirleitt þar í gegn. 

Á vef AP segir að Egyptar hafi samþykkt þessa breytingu eftir samtal á milli forseta Bandaríkjanna, Joe Biden og forseta Egyptalands Abdel-Fattah el-Sissi.

Landamærastöðin við Kerem Shalom hefur að mestu verið óaðgengileg vegna mikilla bardaga. Ísraelar segjast hafa hleypt hundruðum vöruflutningabíla í gegn síðustu vikur en hjálparsamtök segja það yfirleitt of hættulegt að nálgast þá hinum megin.

Ekki víst að hægt verði að nálgast gögnin

Í frétt AP segir að egypska ríkissjónvarpið hafi í morgun birt myndefni af vöruflutningabílunum þegar þeim var ekið inn á Gasa í gegnum Kerem Shalom. Það má sjá að ofan. Yfirmaður Rauða krossins í Egyptalandi, Khaled Zayed, sagði við blaðamann AP að 200 vöruflutningabílum og fjórum olíubílum ættu að fara í gegnum landamærin í dag.

Stríðið á milli Ísrael og Hamas er nú á sínum áttunda mánuði en það hófst eftir að Hamas-liðar réðust inn í Ísrael og drápu um 1.200 almenna borgara og tóku 250 gísla. Enn eru um 100 gíslar í haldi Hamas. Í átökunum hafa 35.800 Palestínumenn látið lífið samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneyti PAlesínu. Ráðuneytinu er stýrt af Hamas og er ekki gerður greinarmunur á almennum borgurum og hermönnum þeirra í þessum tölum.

Á myndinni eru vöruflutningabílar á bið við Kerem Shalom landamærin. Myndin er tekin í apríl en erfitt hefur verið að koma hjálpargögnun inn á Gasa á meðan átökunum stendur. Vísir/EPA

Um 80 prósent þjóðarinnar, eða 2,3 milljónir, hafa flúið heimili sín og hafa ekki aðgengi að mat. Hjálparsamtök hafa sagt hungursneyð yfirvofandi.

Suðurhluti Gasasvæðisins hefur að mestu verið án hjálpargagna undanfarið eða allt frá því að Ísraelar hófu innrás sína á Rafah í upphafi maímánaðar. Frá þeim tíma hefur um ein milljón manns flúið borgina en þau höfðu áður flúið þangað.

Hungursneyð í gangi eða yfirvofandi

Norðurhluti Gasa hefur verið einangraður í marga mánuði og hefur Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna, World Food Programme, varað við því að þar geysi hungursneyð. Hjálpargögn hafa borist þangað í gegnum tvær leiðir á landi sem Ísraelar opnuðu í apríl.

Fjölmenn mótmæli voru í Tel Aviv í gær. Sjö voru handtekin. Vísir/AP

Þá hefur einnig verið mögulegt að senda hjálpargögn í gegnum færanlega byggju sem Bandaríkjamenn byggðu við strendur Gasa.

Verði að ná Rafah til að sigra

Forsætisráðherra Ísrael Benjamin Netanyahu hefur lýst því yfir að til að ná Rafah til að ná að sigra Hamas algerlega. Það verði ekki sigur fyrr en því er lokið. Töluverður þrýstingur er á hann bæði alþjoðlega og innanlands að láta af innrásinni. Alþjóðadómstólinn úrskurðaði á föstudag að herinn ætti að láta af árás sinni á Rafah en Ísrael hefur ekki enn orðið við því. Í úrskurði dómstólsins kom einnig fram að Ísraelar ættu að hleypa inn á Gasa rannsakendum á þeirra vegum sem rannsaka staðhæfingar um þjóðarmorð.

Mótmælendur í Tel Aviv héldu myndum af gíslum og mótmæltu ríkisstjórn Netanyahu.Vísir/AP

Í Ísrael hefur aðgerðunum sömuleiðis verði mótmælt harðlega. Átök voru í nótt í Tel Aviv á milli mótmælenda og lögreglunnar. Hávær krafa er um að yfirvöld komist að samkomulagi við Hamas um þá gísla sem enn eru í þeirra haldi. Þá var einnig krafa um að átökunum myndi linna og að Netanyahu segi af sér og kalli til kosninga. Sjö voru handtekin á mótmælunum í gær samkvæmt frétt Guardian og einn slasaður.


Tengdar fréttir

Halda áfram árásum á Rafah

Í það minnsta þrjátíu manns hafa látið lífið í árásum Ísraelsmanna á Gasasvæðinu síðan alþjóðadómstóllinn í Haag skipaði Ísrael að stöðva innrás sína á Rafah á sunnanverðri Gasaströndinni.

Ísrael eigi að láta af öllum hernaðaraðgerðum í Rafah

Alþjóðadómstóllinn í Haag úrskurðaði í dag að Ísraelsher ætti að láta af öllum hernaðarðageðrum í Rafah í suðurhluta Gasaborgar. Í úrskurðinum er ekki kveðið á um vopnahlé eins og óskað hafði verið eftir af Suður-Afríku sem kom með máli til dómstólsins.

„Þetta setti af stað dómínó-áhrif út um allan heim“

Nemendur í háskólum Hollands hafa undanfarna daga reist tjaldbúðir á skólalóðum til stuðnings Palestínu, og margir mætt mikilli hörku lögreglu. Íslenskur nemandi lýsir mikilli samstöðu meðal stúdenta sem fara fram á að hollenskir háskólar taki skýrari afstöðu gegn ísraelskum stjórnvöldum og slíti tengslum við ísraelska háskóla og fyrirtæki. 

Allsherjarsigur gegn Hamas ólíklegur

Þrátt fyrir umfangsmikinn hernað á Gasaströndinni berjast vígamenn Hamas-samtakanna enn af krafti gegn ísraelska hernum. Þá skjóta Hamas-liðar enn eldflaugum að Ísrael en ráðamenn í Ísrael og í Bandaríkjunum hafa áhyggjur af því að Ísraelar geti ekki náð markmiðum ríkisstjórnar Benjamíns Netanjahú um algeran sigur gegn hryðjuverkasamtökunum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×