Fótbolti

AC Milan missti niður unninn leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Davide Calabria skoraði markið sem leikmenn AC Milan héldu að hefði tryggt þeim sigurinn. Svo var ekki.
Davide Calabria skoraði markið sem leikmenn AC Milan héldu að hefði tryggt þeim sigurinn. Svo var ekki. EPA-EFE/MATTEO BAZZI

AC Milan gerði 3-3 jafntefli við Salernitana í lokaumferð Serie A, ítölsku úrvalsdeild karla í fótbolta. Þjálfaralaust Juventus endaði tímabilið á sigri.

AC Milan virtist hafa unnið leik sinn í fyrri hálfleik eftir tvö mörk frá Rafael Leão og Oliver Giroud. Þá skoraði Theo Hernández þriðja markið en það var dæmt af vegna rangstöðu og staðan 2-0 í hálfleik.

Simy minnkaði muninn fyrir gestina en Davide Calabria kom AC Milan 3-1 yfir skömmu síðar. Gestirnir neituðu hins vegar að gefast upp og Junior Sambia minnkaði muninn þegar þrjár mínútur voru til leiksloka og Simy jafnaði metin undir lok venjulegs leiktíma. Lokatölur á San Siro í Mílanó 3-3 og AC Milan endar með 75 stig í 2. sæti deildarinnar.

Þá vann Juventus 2-0 sigur á Monza þökk sé mörkum Federico Chiesa og Alex Sandro í fyrri hálfleik. Juventus endar í 3. sæti með 71 stig nema Atalanta vinni síðustu tvo leiki sína en liðið fékk frí vegna þátttöku sinnar í Evrópudeildinni.

Juventus er í þjálfaraleit eftir að láta Massimiliano Allegri eftir að liðið hafði tryggt sér ítalska bikarinn. Talið er næsta öruggt að Thiago Motta, þjálfari Bologna sem endaði í 4. sæti, taki við Juventus.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×