Erlent

Halda á­fram á­rásum á Rafah

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Sprengjur dynja enn á Rafah þrátt fyrir úrskurð alþjóðadómstólsins.
Sprengjur dynja enn á Rafah þrátt fyrir úrskurð alþjóðadómstólsins. AP/Ramez Habboub

Í það minnsta þrjátíu manns hafa látið lífið í árásum Ísraelsmanna á Gasasvæðinu síðan alþjóðadómstóllinn í Haag skipaði Ísrael að stöðva innrás sína á Rafah á sunnanverðri Gasaströndinni.

Í gær úrskurðaði alþjóðadómstóllinn að Ísraelsher ætti að láta af öllum hernaðaraðgerðum í Rafah. Í úrskurðinum var þó ekki kveðið á um vopnahlé eins og óskað hafði verið eftir af Suður-Afríku sem kom með málið til dómstólsins.

Þrátt fyrir áframhaldandi árásir fer fram ný tilraun til vopnahlésviðræðna í næstu viku samkvæmt heimildum Reuters. Norðanvert á Gasasvæðinu gerði ísraelski herinn einnig loftárásir. Alls segja heilbrigðisyfirvöld á svæðinu að 31 hafi látist í árásum síðasta sólarhringinn en ekki er greint milli hermanna og borgara.

Þrátt fyrir mikla alþjóðlega andspyrnu halda Ísraelsmenn aðgerðum sínum í Rafah áfram. Hundruðir þúsunda flóttamanna höfðu sest tímabundið að í dvala, mörg í frumstæðum tjaldbúðum við útjaðar borgarinnar, til að flýja átökin annars staðar á svæðinu. Síðan Ísraelsmenn hófu að gera árásir einnig á Rafah hafa þeir dreifst víða um Gasa.

„Hernámsliðið heldur uppi stöðugum loftárásum, ekki bara í austurhlutanum þar sem þeir réðust inn heldur einnig í miðborginni og vesturbænum. Þeir vilja hræða fólkið burt úr allri borginni,“ hefur Reuters eftir íbúa í Rafah.

Hingað til hafa átök að miklu leyti einskorðast við suður- og austurbæ Rafah og haldist utan við þéttbyggð svæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×