Upp­gjör: Valur-FH 2-2 | Hvorugt liðið fór sátt af velli á Hlíðar­enda

Hjörvar Ólafsson skrifar
FH náði í stig á Hlíðarenda en hefði viljað öll þrjú.
FH náði í stig á Hlíðarenda en hefði viljað öll þrjú. Vísir/Anton Brink

Valur og FH skildu jöfn, 2-2, þegar liðin áttust við í áttundu umferð Bestu deildar karla í fótbolta á N1-vellinum að Hlíðarenda í kvöld. Valur jafnaði Breiðablik að stigum í öðru til þriðja sæti deildarinnar með þessum úrslitum en Valsliðið er nú sex stigum á eftir Víkingi sem trónir á toppnum. 

Víkingur er með 21 stig í toppsætinu, Breiðablik og Valur 15 stig þar á eftir og FH er síðan í fjórða sæti með sín 13 stig. Breiðablik á leik til góða á liðin í kringum sig en Blikar mæta Fram sem er í fimmta sæti með 12 stig annað kvöld. 

Atvik leiksins

FH-ingar hófu leikinn af miklum krafti en eftir tæplega tíu mínútna leik fékk Sigurður Bjartur Hallsson fyrsta færi leiksins. Ísak Óli Ólafsson tók þá sprett úr miðri vörn gestanna og fann Sigurð Bjart í upplögðu marktækifæri. Skot Sigurðar Bjarts var hins vegar algerlega mislukkað og Frederik Schram varði það auðveldlega.

Umdeilt atvik átti sér svo stað um miðjan fyrri hálfleik. Birkir Már Sævarsson slapp þá einn í gegnum ósamstíga vörn FH-liðsins og átti bara eftir að sigrast á Sindri Kristni Ólafssyni. Birkir Már ætlaði vippa boltanum yfir Sindra Kristinn sem slæmdi hönd sinni í boltann, að því er virtist, fyrir utan vítateig.

Sigurður Hjörtur Þrastarson, dómari leiksins, og Gylfi Már Sigurðsson, aðstoðarmaður hans, mátu það hins vegar sem svo að atvikið hafi átt sér stað innan vítateigslínunnar og létu það af þeim sökum óátalið.

Björn Daníel Sverrisson kom svo FH-ingum yfir þegar leikurinn var um það bil hálftíma gamall. Kjartan Kári Halldórsson tók þá hornspyrnu sem rataði á kollinn á Birni Daníel Sverrissyni sem skallaði boltann í fjærhornið. Þetta var verðskulduð forysta hjá FH en gestirnir höfðu heilt yfir verið betri fram að markinu.

Sigurður Bjartur hélt svo áfram að koma sér í færi eftir markið án þess að ná að tvöfalda forskot FH-inga.

Valsmenn jöfnuðu síðan metin í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Adam Ægir Pálsson tók hornspyrnu sem Valur fékk eftir að Sindri Kristinn Ólafsson varði frábærlega skot frá Patrick Pedersen. Orri Sigurður Ómarsson var réttur maður á réttum stað og setti boltann í netið af stuttu færi.

Þegar stundarfjórðungur rúmur var liðinn af seinni hálfeik gerði hinn uppaldi FH-ingur sínu gamla félagi grikk með því að koma Valsmönnum yfir. Jónatan Ingi kom sjálfum sér í færi með frábærum spretti upp hægri kantinn og chippaði boltanum því næst laglega yfir Sindra Kristinn.

Lífið leikur við Jónatan Inga þessa dagana en hann eignaðist barn í gærkvöldi eða nótt sem leið og kórónaði sólarhringinn með þessu marki. 

FH-ingar gerðu tilkall til vítaspyrnu skömmu síðar þegar Vuk Oskar Dimitrijevic féll í vítateig Valsmanna eftir viðskipti við Sigurð Egil Lárusson. Vuk Oskar var mögulega brennimerktur af því að hafa freistað þess að fiska vítaspyrnu með leikaraskap nokkrum mínútum fyrr. Sigurður Hjörtur lét sér altént fátt um finnast og lét leikinn halda áfram.

FH breytti svo stöðunni í 2-2 þegar rúmt korter var eftir af leiknum en þá gerði Sigurður Bjartur, sem hafði farið illa með færi fyrr í leiknum, býsna vel. Sigurður Bjartur kom sér upp að endamörkum með góðum snúningi og lagði boltann fyrir Úlf Ágúst Björnsson sem setti boltann í autt markið af stuttu færi.

Þar við sat og niðurstaðan 2-2-jafntefli í leik þar sem bæði lið töldu sig líklega eiga stigin þrjú skilin og þurftu á þeim að halda í þeirri baráttu sem þau eru í. 

Arnar Grétarsson, þjálfari Vals, hefði viljað fá meira út úr þessum leik. Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Arnar: Hefðum átt að sigla þessum sigri heim

„Þetta eru svekkjandi úrslit og mér fannst við eiga að landa þessu sérstaklega eftir að hafa komist í 2-1. Við hefðum átt að gera betur þegar þeir jafna og gátum hæglega komið í veg fyrir það mark,“ sagði Arnar Grétarsson, þjálfari Vals, að leik loknum. 

„Við vorum að spila þetta upp í hendurnar framan af leik en komumst betur og betur inn í leikinn þegar líða tók á hann. Við viljum alltaf vinna á heimavelli og af þeim sökum er þetta svekkelsi,“ sagði Arnar enn fremur. 

Heimir: Fannst við heilt yfir sterkari aðilinn

„Það eru vonbrigði að hafa ekki náð að fara með stigin þrjú í farteskinu úr þessum leik. Mér fannst við heilt yfir sterkari aðilinn og skapa nógu mörg færi til þess að tryggja okkur sigur. Það tókst ekki og ég fer ósáttur frá þessari viðureign með niðurstöðuna,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH. 

„Eftir góðan fyrri hálfleik fáum við á okkur mark úr föstu leikatriði þar sem við áttum að gera betur. Við fengum svo góðar stöður og flotta sjénsa til þess að gera út um leikinn í seinni hálfleik. Því fór sem fór og eitt stig uppskeran,“ sagði Heimir sem var ánægður með frammistöðuna en fúll með niðurstöðuna. 

Heimir Guðjónsson fannst FH-liðið eiga meira skilið. 

Stjörnur og skúrkar

Jónatan Ingi átti góðan leik inni á miðsvæðinu hjá Val og skapaði fín færi fyrir félaga sína leiknum. Jónatan Ingi kom svo sjálfum sér í færi þegar hann skoraði annað mark Vals í leiknum. Frederik Schram varði nokkrum sinnum vel í leiknum og gat ekkert gert í þeim mörkum sem hann fékk á sig. 

Björn Daníel var líkt og oft áður í sumar eins og kóngur í ríki sínu inni á miðsvæðinu hjá FH og kom svo liði sínu á bragðið. Böðvar Böðvarsson átti góðan leik í vinstri bakverðinum og Kjartan Kári Halldórsson var sprækur á hægri kantinum. 

Sigurður Bjartur breyttist svo úr skúrk í hetju þegar hann lagði upp jöfnunarmarkið í leiknum eftir að hafa farið illa með fjölmörg færi fram að því. 

Dómarar leiksins

Dómari leiksins, Sigurður Hjörtur Þrastarson, og teymi hans dæmdu leikinn heilt yfir vel en afar erfitt var að sjá á vellinum og í sjónvarpi hvort þeir hafi gert rétt eða rangt þegar Sindri Kristinn varði skot Arons í fyrri hálfleik. Svo var það vafamál hvort Vuk Oskar hefði átt að fá vítaspyrnu þegar Sigurð Egill varð í vegi hans í för hans inni í vítateig. Þeir fá því sjö í einkunn fyrir vel unninn störf.

Stemming og umgjörð

Mætingin á Hlíðarenda bar þess merki að landsmenn eru margir hverjir í útskriftarveislum. Það var hins vegar létt yfir Valsmönnum sem mættu sigurreifir til leiks eftir að hafa fagnað sigri karlaliðs félagsins í handbolta í Evrópubikarnum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira