Erlent

For­­sætis­ráð­herra Slóvakíu í lífs­hættu eftir skot­á­rás

Atli Ísleifsson skrifar
Sjúkraflutningamenn flytja Robert Fico á sjúkrahús í Banska Bystrica. Hann er sagður lífshættulega særður.
Sjúkraflutningamenn flytja Robert Fico á sjúkrahús í Banska Bystrica. Hann er sagður lífshættulega særður. AP/Jan Kroslak/TASR

Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu, hefur verið fluttur á sjúkrahús eftir skotárás fyrr í dag. Hann er sagður vera með lífshættulega áverka.

AP greinir frá því að árásin hafi verið gerð í bænum Handlova, um 180 kílómetra norðaustur af höfuðborginni Bratislava. Ríkisstjórnarfundur hafði verið haldinn í bænum og var hann staddur fyrir utan menningarhús bæjarins þegar árásin var gerð.

Fico ræðir við fólk fyrir ríkisstjórnarfundinn í Handlova í dag. Hann var skotinn eftir fundinn.AP/Radovan Stoklasa/TASR

Sjónvarpsstöðin TA3 greinir frá því að grunaður árásarmaður sé í haldi lögreglu. Sjónarvottar segja árásarmanninn hafa hleypt af fjórum skotum . Breska ríkisútvarpið BBC segir að Fico hafi verið fluttur með þyrlu á sjúkrahús.

Í færslu slóvakíska forsætisráðuneytisins á Facebook segir að Fico hafi verið skotinn oft og að áverkarnir séu lífshættulegir. 

Hinn 59 ára Fico tók við embætti forsætisráðherra Slóvakíu í október síðastliðinn. Hann hafði þá áður gegnt embættinu á árunum 2006 til 2010 og aftur 2012 til 2018. Hann er formaður Jafnaðarmannaflokksins Smer.

Fico er umdeildur og hefur meðal annars varpað upp spurningum um fullveldi Úkraínu og sömuleiðis stöðvað vopnasendingar Slóvaka til Úkraínu. 

Zuzana Caputova, forseti landsins, segist á Instagram fordæma árásina og kveðst vera í áfalli vegna málsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×