Upp­gjör, við­töl og myndir: Valur - Tinda­­stóll 3-1 | Meistararnir lentu undir en komu til baka

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Valskonur fagna einu marka sinna.
Valskonur fagna einu marka sinna. Vísir/Anton Brink

Tindastóll hafði unnið tvo leiki í röð í Bestu deild kvenna þegar liðið mætti Val, ríkjandi Íslandsmeisturum, á Hlíðarenda í kvöld. Stólarnir komust yfir en meistararnir svöruðu með þremur mörkum og hafa nú unnið alla fimm leiki sína til þessa í deildinni. 

Valur byrjaði leikinn sterkt og sótti vel að marki Tindastóls á upphafs mínútum. Það voru þó gestirnir sem áttu eftir að eiga fyrsta höggið í þessum leik en það dró til tíðinda strax á 10. mínútu þegar Hugrún Pálsdóttir fékk boltann svolítið fyrir utan teig og ákvað að láta bara vaða. Það vildi ekki betur til en svo að boltinn sveif yfir Fanney Ingu Birkisdóttur í marki Vals og gestirnir komnir í forystu.

Stólarnir komust yfir.Vísir/Anton Brink

Tindastóll voru virkilega þéttar og gáfu fyrst um sig fá færi á sér. Valur reyndu að skapa sér færi en komust illa í gegnum þéttan múr Tindastóls.

Það dró aftur til tíðinda á 38. mínútu leiksins þegar frábært samspil milli Fanndísar Friðriksdóttur og Amöndu Andradóttur opnaði vörn Tindastóls upp á gátt og Fanndís skoraði. Fanndís var svo aftur á ferðinni tveim mínútum seinna og kom Val í 2-1 eftir undirbúning frá Katie Cousins og Valur leiddi með tveimur mörkum gegn einu í hálfleik.

Fanndís fagnar með Katherine Cousins. Vísir/Anton Brink

Seinni hálfleikurinn var rétt rúmlega tveggja mínútna gamall þegar Valur bætti við þriðja markinu. Camryn Paige Hartman átti þá frábæra fyrirgjöf fyrir markið og Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir stangaði boltann inn.

Guðrún Elísabet fagnar marki sínu.Vísir/Anton Brink

Eftir þetta mark var eins og Valsliðið hafi svolítið sett bara á ‘cruise control’ og það gerðist ekki mikið meira marktækt í þessum leik. Valur sigldu sigrinum nokkuð þægilega í höfn 3-1.

Atvik leiksins

Hægt að nefna öll mörkin í sjálfu sér. Markið frá Tindastól var skot fyrir utan teig sem Fanney Inga misreiknar yfir sig. Fanndís snýr leiknum á tveimur mínútum með tveim góðum mörkum og Guðrún Elísabet drepur leikinn með sínu marki í upphafi seinni hálfleiks.

Fanndís Friðriksdóttir og Katherine Cousins fagna innilega. Vísir/Hulda Margrét

Stjörnur og skúrkar

Erfitt að horfa framhjá Fanndísi Friðriksdóttur í þessum leik. Snéri leiknum fyrir Val með tveimur góðum mörkum. Amanda Andradóttir var einnig öflug í liði Vals og fór rosalega mikið í gegnum hana. Guðrún Elísabet var einnig ógnandi og óhrædd við að skjóta.

Hjá Tindastól var það Monica Elisabeth Wilhelm sem var langbest. Bjargaði því að munurinn varð ekki stærri og tók mikilvægar vörslur.

Monica Elisabeth Wilhelm sá til þess að Berglind Björg Þorvaldsdóttir kom boltanum ekki í netið.Vísir/Anton Brink

Dómarinn

Bríet Bragadóttir var með flautuna hér í dag og henni til aðstoðar voru Magnús Garðarsson og Ásgeir Viktorsson. Stefán Ragnar Guðlaugsson var varadómari og Kristján Halldórsson var eftirlitsdómari.

Fínasta frammistaða frá teyminu í dag. Ekkert yfir þeim að kvarta og engar stórar ákvarðanir sem þurfti að taka. Þægilegur leikur heilt yfir og þau komust vel frá sínu.

Bríet Bragadóttir, dómari leiksins.Vísir/Hulda Margrét

Stemningin og umgjörð

Það var þokkalegasta mæting hér í dag. Pétur átti von á því að Valsarar væru uppteknari á öðrum vígstöðvum en miðað við marga aðra leiki þá var yfir litlu að kvarta varðandi mætinguna hér í dag. Umgjörðin fyrir þennan leik naut góðs af körfubolta umgjörðinni sem er hér hjá Val fyrir leik þeirra í kvöld gegn Njarðvík.

„Fannst það sanngjarnt og áttum þetta inni“

Pétur Pétursson er þjálfari Íslandsmeistara Vals.Vísir/Anton Brink

„Bara ánægður með þetta. Ánægður að vinna Tindastól 3-1 og erfiður leikur fannst mér en samt fannst mér við spila þetta mjög vel,“ sagði Pétur Pétursson þjálfari Vals eftir sigurinn í dag.

Valur byrjaði leikinn virkilega sterkt og fengu markið á sig svolítið gegn gangi leiksins en náðu að snúa leiknum fyrir hálfleikinn.

„Það munar öllu að geta gert það. Mér fannst það sanngjarnt og við áttum þetta inni en samt sem áður þarftu að gera það og þær gerðu það vel.“

Um leið og Valur skoraði þriðja markið í leiknum þá virtist leikurinn svolítið fjara út.

„Já mér fannst það. Mér fannst það líka aðeins í seinni hluta seinni hálfleiks við flýta okkur alltof mikið með sendingar og annað. Það gaf þeim oft breik sem mér fannst óþarfi. En heilt yfir var þetta bara gott að vinna og fá þrjú stig.“

Elísa Viðarsdóttir var á varamannabekk Vals í dag en hún eignaðist barn fyrir um tveimur og hálfum mánuði síðan.

„Ég var svona mikið að pæla í að setja hana inn á en ákvað að gera það ekki. Þórdís Hrönn er þarna líka en því miður. Það er leikur á sunnudaginn á móti Fram í bikarnum og vonandi fá þær eitthvað þar.“

„Tek það á mig“

Halldór Jón Sigurðsson, betur þekktur sem Donni, er þjálfari Stólanna.Vísir/Anton Brink

„Ég er bara svekktur að leikurinn fór 3-1. Mér fannst 2-1 kannski vera eðlilegri staða svona úr því hvernig leikurinn þróaðist. Valur stjórnaði leiknum og við vissum það alveg,“ sagði Halldór Jón Sigurðsson þjálfari Tindastóls eftir leikinn í dag.

„Það voru taktíkst mistök hjá mér hvernig leikurinn var lagður upp. Ég tek það á mig og fannst það mjög leitt. Við vorum búnar að gera vel í því sem við vorum að gera og við fórum svolítið út af því. Ég ætlaði að vera sniðugur og vissulega skoruðum við mark sem var skemmtilegt. Ég hefði svo kannski átt að breyta í hitt gamla því það var að virka betur fyrir okkur þegar við breytum í það í seinni hálfleik.“

Tindastóll komst yfir snemma í leiknum og hvað gerðist svo?

„Eins og eðlilega þegar við komumst yfir þá eðlilega missa leikmenn kannski stundum fókus í einhverjar sekúndur og Valur skorar svo fljótlega. Það sem svíður kannski mest er að þær hafi fengið að skora strax aftur. Að við höfum ekki náð að þétta okkur strax eftir markið afþví það hefði verið hægt að halda út hálfleikinn.“

Halldór Jón Sigurðsson sagði þó að sitt lið hafi lært af þessum leik og fengið góða reynslu í reynslubankann.

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira