Rúnar Þór Sigurgeirsson var í byrjunarliði Willem II sem vann 3-2 endurkomusigur á Telstar. Keflvíkingurinn var tekinn af velli á 61. mínútu.
Willem II var 0-2 undir í hálfleik en kom til baka og tryggði sér sigurinn með marki þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Með stigunum þremur tryggði Willem II sér sigurinn í deildinni og liðið leikur því í úrvalsdeildinni á næsta tímabili.
Elías Már Ómarsson kom inn á undir lokin þegar NAC Breda gerði 1-1 jafntefli við Oss á útivelli.
Með stiginu tryggði NAC Breda sér sæti í umspili um sæti í úrvalsdeildinni. Liðin í sætum 3-8 í B-deildinni mætast þar.
Enginn íslenskur sigur
Birkir Bjarnason lék allan leikinn fyrir Brescia sem tapaði Bari á útivelli, 2-0. Þrátt fyrir tapið endar Brescia í 8. sæti deildarinnar og kemst þar af leiðandi í umspil um sæti í úrvalsdeildinni.
Bjarki Steinn Bjarkason og Mikael Egill Ellertsson komu inn á sem varamenn þegar Venezia laut í lægra haldi fyrir Spezia, 2-1. Feneyjaliðið lenti í 3. sæti deildarinnar og fer í umspil.
Hjörtur Hermannsson lék ekki með Pisa sem tapaði fyrir Ascoli, 2-1. Pisa endaði í 13. sæti deildarinnar.
Stórtap
Davíð Kristján Ólafsson og félagar í Cracovia steinlágu fyrir Slask Wroclaw, 4-0, í pólsku úrvalsdeildinni. Davíð var í byrjunarliði Cracovia en var tekinn af velli á 69. mínútu.
Cracovia er í 14. sæti deildarinnar en Slask Wroclaw er á toppnum.