Enski boltinn

Thiago Silva hættir hjá Chelsea en vonast til að synirnir spili þar á­fram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thiago Silva vann Meistaradeildina með Chelsea sem tókst ekki í mörg ár hans hjá Paris Saint Germain.
Thiago Silva vann Meistaradeildina með Chelsea sem tókst ekki í mörg ár hans hjá Paris Saint Germain. Getty/Darren Walsh

Brasilíumaðurinn Thiago Silva mun kveðja Chelsea eftir þetta tímabil en samningur hans rennur úr í sumar og verður ekki endurnýjaður.

Silva hefur verið orðaður við Fluminense í heimalandinu og eins er slúðrað um það að hann fari til AC Milan. Þessi 39 ára gamli leikmaður er alla vega ekki hættur.

„Chelsea skiptir mig miklu máli. Ég kom hingað fyrst með það markmið að vera bara í eitt tímabil en þetta endaði með að vera fjögur ár, ekki aðeins fyrir mig heldur fyrir fjölskyldu mína líka,“ sagði Thiago Silva í viðtali á miðlum Chelsea.

Hann kom til Chelsea í ágúst 2020 á frjálsri sölu frá Paris Saint Germain. Síðan hefur hann spilað 151 leik fyrir félagið, unnið Meistaradeildina, heimsmeistarakeppni félagsliða og Ofurbikar UEFA.

„Synir mínir spila núna fyrir Chelsea og það fylgir því stolt að vera hluti af Chelsea fjölskyldunni og nú bókstaflega af því að strákarnir mínir spila hérna núna. Vonandi geta þeir haldið áfram ferli sínum hjá þessu sigursæla félagi sem svo margir vilja spila fyrir,“ sagði Thiago.

„Ég hugsa um allt sem ég gerði hjá félaginu þessi fjögur ár. Ég hef alltaf gefið allt mitt en því miður á allt sér upphaf, miðju og endi,“ sagði Thiago.

„Það þýðir ekki að þetta sé endirinn. Ég vonast til þess að dyrnar standi opnar fyrir mig í næstu framtíð og ég geti mögulega snúið til baka í öðru hlutverki. Ég vil bara þakka fyrir mig,“ sagði Thiago.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×