Erlent

Vopna­hlé í sjón­máli?

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Átökin á Gasa eru að verða að innanríkismáli í Bandaríkjunum, þar sem mótmæli hafa brotist út við fjölda háskóla.
Átökin á Gasa eru að verða að innanríkismáli í Bandaríkjunum, þar sem mótmæli hafa brotist út við fjölda háskóla. AP/Andres Kudacki

Háttsettur embættismaður innan Hamas hefur sagt við AFP að samtökin geri engar meiriháttar athugasemdir við nýjar tillögur Ísraelsmanna um vopnahlé á Gasa.

Sendinefnd Hamas er væntanleg til Kaíró í dag til að ræða viðbrögð samtakanna við tillögunum.

Á sama tíma hefur embættismaður innan stjórnkerfisins í Katar, sem hefur átt milligöngu um friðarviðræðurnar, hvatt bæði Hamas og Ísrael til að taka þær alvarlegar.

Þrettán eru sagðir látnir eftir loftárásir Ísrael á Rafah á síðasta sólahring. Þá eru herþotur sagðar hafa gert árásir á tvö hús í norðurhluta Gasa, þar sem nokkrir létust og særðust.

Joe Biden Bandaríkjaforseti ræddi við Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael í gær, og ítrekaði andstöðu Bandaríkjamanna við fyrirhugað áhlaup Ísraelshers á Rafah. Þá kallaði hann eftir því að neyðaraðstoð til handa íbúum Gasa yrði aukin.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er nú í opinberri sendiför um Mið-Austurlönd, meðal annars til að freista þess að greiða fyrir friðarviðræðum. Hann er nú staddur í Sádi Arabíu en mun einnig ferðast til Jórdaníu og Ísrael.

Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, segir Bandaríkjamenn einu von Palestínumanna til að koma í veg fyrir að Ísrael ráðist inn í Rafah. 

Abbas var staddur á World Economic Forum í Riyadh þegar hann lét ummælin falla en hann sagði árás á Rafah, þar sem yfir milljón manns dvelur, gætu orðið mestu hörmungar í sögu Palestínu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×