Íslenski boltinn

Barns­hafandi eftir langt ferli sem tók á and­lega

Aron Guðmundsson skrifar
Erin McLeod og Gunnhildur Yrsa eiga von á sínu fyrsta barni. Þær eru báðar samningsbundar Stjörnunni og fylgist Gunnhildur því með leikjum liðanna úr stúkunni í sumar.
Erin McLeod og Gunnhildur Yrsa eiga von á sínu fyrsta barni. Þær eru báðar samningsbundar Stjörnunni og fylgist Gunnhildur því með leikjum liðanna úr stúkunni í sumar. Vísir/Vilhelm

Knatt­spyrnu­konan Gunn­hildur Yrsa Jóns­dóttir og unnusta hennar Erin Mc­Leod eiga von á sínu fyrsta barni saman. Gunn­hildur greindi frá því á dögunum að hún væri barns­hafandi og mun hún því ekki leika með Stjörnunni á yfir­standandi tíma­bili í Bestu deildinni. Ferlið að verða barns­hafandi. Tók hins vegar lengri tíma en þær höfðu á­ætlað.

Gunn­hildur og Erin eru báðar samnings­bundnar Stjörnunni. Gunn­hildur, sem á að baki far­sælan feril í at­vinnu­mennsku sem og með ís­lenska lands­liðinu, lagði lands­liðs­skóna á hilluna á síðasta ári.

„Við vissum að við vildum verða for­eldrar og fyrir svona tveimur árum byrjuðum við ferlið. Þetta var mjög erfitt ferli sem tók langan tíma,“ segir Gunn­hildur Yrsa í sam­tali við Vísi en upp­lifunin var þvert á það sem Gunn­hildur hafði talið að yrði raun­veru­leikinn.

„Maður ein­hvern veginn hafði aldrei spáð í að það að verða ó­létt myndi taka þennan tíma. Hugsaði þetta frekar á þá leið að þegar að ég vildi verða ó­létt, þá yrði ég ó­létt. Því miður varð það ekki raunin. Það var öðru­vísi veru­leiki en ég hafði áður kynnst á öðrum sviðum lífsins.

Mín reynsla var sú að maður getur unnið fyrir hlutunum ef maður leggur hart að sér. Eins og á fót­bolta­vellinum eða í skóla. Svona er hins vegar líkaminn. Maður þarf að taka því. Þessi tími tók á and­lega. En það sem kannski hjálpaði okkur var hið góða stuðnings­net sem við eigum í kringum okkur.“

Raun­veru­leiki sem margir kannast við og alls ekki á vísan að róa þegar kemur að því að vera barns­hafandi. Um­ræða sem er oft ekki á yfir­borðinu.

„Þess vegna held ég að það sér líka bara mikil­vægt að ræða þetta. Ég ein­hvern veginn bjóst bara við að þetta myndi ganga upp í fyrstu til­raun. Að við yrðum bara al­sælar strax og allt frá­bært. Það varð ekki raunin en á þessari veg­ferð hitti maður fólk sem var búið að ganga í gegnum það sama og við vorum að upp­lifa. 

Það gaf okkur mikla von og um leið upp­lifðum við það að við værum ekki að standa einar í þessari bar­áttu. Ég held að það sé mjög mikil­vægt að tala um sitt ferli. Þetta var kannski ekki auð­velt en í dag erum við hættar að hugsa um það. Loksins tókst þetta hjá okkur.“

„Hvort ég spili aftur veit ég ekki“

Og eru Gunn­hildur og Erin skiljan­lega spenntar fyrir fram­haldinu og verðandi for­eldra­hlut­verki.

Erin spilaði um árabil með landsliði Kanada og á að baki yfir eitthundrað A-landsleiki. Vísir/Getty

„Ég er komin í smá pásu frá fót­bolta núna á meðan að Erin er enn að spila. Þetta verður því öðru­vísi sumar fyrir mig á meðan að hún verður á­fram inn á fót­bolta­vellinum. Við verðum mikið upp í stúku.“

Gunn­hildur lagði lands­liðs­skóna á hilluna á síðasta ári en er samnings­bundin Stjörnunni. Hún er ekki reiðu­búin að slá því föstu að leik­manna­ferillinn sé kominn á enda­stöð og hefur undan­farið, auk þess að vera leik­maður Stjörnunnar, starfað sem styrktar þjálfari ís­lenska kvenna­lands­liðsins auk þess sem hún sinnir fleiri verk­efnum innan KSÍ.“

„Ég held ég fari út í þjálfun í fram­haldinu. Bæði sem styrktar þjálfari en einnig sem þjálfari úti á vellinum. Hvort ég spili aftur veit ég ekki. Ég er náttúru­lega þrjá­tíu og fimm ára núna og maður veit aldrei hvernig líkaminn bregst við því að vera ó­léttur og svo að eignast barn. Það verður bara að koma í ljós.“

Gunnhildur Yrsa og Erin eftir sigurleik með Stjörnunni.Vísir/Hulda Margrét

„Per­sónu­lega held ég að ég muni aldrei gefa það út að ég ætli mér að hætta í fót­bolta. Ég hef ekki löngun í að segja það að ég muni leggja skóna á hilluna. Maður veit aldrei hvort að maður taki eitt tíma­bil seinna á lífs­leiðinni. En svo gæti alveg verið að ég spili aldrei aftur. Ég er ekki búin að taka neina á­kvörðun. Þetta verður bara að koma í ljós.“

Það er kannski bara sterk vís­bending um það hversu kær leikurinn er fyrir þér?

„Já. Þótt að ég muni kannski aldrei spila aftur þá mun ég samt halda á­fram að starfa í kringum leikinn með ein­hverjum hætti. Að leggja skóna á hilluna. Ég þjálfa nú alltaf í takka­skóm og held því að ég muni aldrei form­lega leggja þá á hilluna. Mig langar að gefa til baka til leiksins sem að hefur gefið mér svo mikið.“

Í draumastarfinu

Gunn­hildur er himin­lifandi í starfi sínu með ís­lenska lands­liðinu og hjá KSÍ.

„Drauma­starf. Ég hef mikinn á­huga á styrktar­þjálfun og fæ líka svo að vinna með gras­rótinni. Það er frá­bært fólk hér og þar og ég er ó­trú­lega þakk­lát fyrir þetta tæki­færi. Nú er bara tími fyrir mig til þess að sanna mig sem þjálfari í því starfi sem ég er í.“

En var ekkert erfitt fyrir hana að fara úr því að vera leik­maður lands­liðsins yfir í að verða hluti af þjálfara­t­eyminu?

„Nei mér finnst þetta svo ó­trú­lega náttúru­legt. Kannski vegna þess að ég hafði svo lengi í­myndað mér að fara á endanum út í þjálfun. Kannski ekki með lands­liðinu en hjá ein­hverju liði. Leik­mennirnir og starfs­menn hafa verið svo ó­trú­lega frá­bær í því að taka á móti mér, hjálpa mér að koma mér fyrir í þessu hlut­verki. Ég er full þakk­lætis fyrir það.“

Viðtalið við Gunnhildi Yrsu í heild sinni má sjá hér fyrir neðan:

Klippa: Gunnhildur Yrsa: Loksins tókst þetta hjá okkurFleiri fréttir

Sjá meira


×