Íslenski boltinn

Eftir 376 leiki með KR mætir Rúnar KR í fyrsta sinn á Ís­lands­móti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Kristinsson fékk blómvönd fyrir síðasta leik sinn með KR í fyrra.
Rúnar Kristinsson fékk blómvönd fyrir síðasta leik sinn með KR í fyrra. Vísir/Hulda Margrét

Þetta er sérstakur dagur fyrir einn ástsælasta lifandi KR-inginn. Við erum auðvitað að tala um sjálfan Rúnar Kristinsson. Í dag mætir hann KR í fyrsta sinn í leik á Íslandsmóti.

Rúnar lék sjálfur 140 leiki með KR í efstu deild og tók síðan við liðinu eftir að ferlinum lauk. Rúnar stýrði KR-liðinu alls í 236 leikjum í efstu deild, fyrst frá 2010 til 2014 og svo aftur frá 2018 til 2023.

Það þýðir að Rúnar tekur tekið þátt í 376 leikjum með KR annað hvort sem leikmaður eða þjálfari. Nú er komið að því að reyna í fyrsta sinn að reyna að vinna KR á Íslandsmóti.

Rúnar fær þó ekki að heimsækja sinn gamla heimavöll á Meistaravöllum í dag. Grasið er ekki tilbúið á KR-vellinum og spilar KR-ingar því þennan heimaleik sinn á AVIS vellinum í Laugardalnum.

Gregg Oliver Ryder tók við KR-liðinu af Rúnari og hefur stýrt liðinu til sigurs í fyrstu tveimur leikjum þess í Bestu deildinni. Enginn þjálfari KR-liðsins hefur náð því síðan að liðið vann fjóra fyrstu leiki sína undir stjórn Rúnars sumarið 2013.

Rúnar getur þar með í dag orðið fyrsti þjálfarinn til að vinna KR eftir að hann sjálfur hætti með liðið.

Þetta verður þó ekki fyrsti mótsleikur hans á móti KR því Fram spilaði við Vesturbæjarliðið í Reykjavíkurmótinu. Fram komst í 1-0 í leiknum en KR vann leikinn 4-2.

Leikur KR og Fram hefst klukkan 16.15 í dag og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×