Erlent

Af­salta sjó til drykkjar í þurrki í Barcelona

Kjartan Kjartansson skrifar
Viðvarandi þurrkur er í Katalóníu og íhuguðu héraðsyfirvöld meðal annars að flytja inn drykkjarvatn með bátum.
Viðvarandi þurrkur er í Katalóníu og íhuguðu héraðsyfirvöld meðal annars að flytja inn drykkjarvatn með bátum. AP/Emilio Morenatti

Yfirvöld í Katalóníu á Spáni ætla að koma upp fljótandi afsöltunarstöð til þess að tryggja borgarbúum í Barcelona drykkjarvatn í langvarandi þurrki sem geisar þar. Borgin reiðir sig nú þegar á stærstu afsöltunarstöð Evrópu til þess að bæta upp fyrir minnkandi úrkomu.

Fljótandi afsöltunarstöðin verður tekin í notkun í október ef áform héraðsstjórnarinnar ganga eftir. Hún á að framleiða um sex prósent af vatnsþörf borgarinnar. Um fjórðungur drykkjarvatnsins kemur frá varanlegri afsöltunarstöð.

Úrkoma hefur verið undir meðaltali í Katalóníu undanfarin þrjú ár sem hefur leitt til sögulegs þurrks sem ágerist vegna hnattrænnar hlýnunar af völdum manna. Vatnsból sem sex milljónir manna í miðri og norðanverðri Katalóníu, þar á meðal í Barcelona, reiða sig á, standa nú í um átján prósentum af getu sinni, að sögn AP-fréttastofunnar.

Takmarkanir á vatnsnotkun hefur verið í gildi frá því að neyðarástandi var lýst yfir í febrúar. Einstaklingar megar mest nota tvö hundruð lítra á dag. David Mascort, yfirmaður umhverfismála í Katalóníu, segir að nýja afsöltunarstöðin eigi að koma í veg fyrir að grípa þurfi til strangari takmarkana í haust.

Landbúnaður og iðnaður hefur þurft að taka á sig töluverða skerðingu. Þannig þurfa ræktendur nytjajurta að draga úr vatnsnotkun sinni um áttatíu prósent, eigendur hjarðdýra um helming og iðnaður um fjórðung.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×