Erlent

Greitt fyrir að­gengi and­stæðinga þungunar­rofs inn á heil­brigðis­mið­stöðvar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
„Veljum lífið“ var yfirskrift mótmælagöngu sem farin var í Róm í fyrra, þar sem fólk hélt meðal annars á skiltum þar sem sagði að þungunarrof jafngilti barnsmorði.
„Veljum lífið“ var yfirskrift mótmælagöngu sem farin var í Róm í fyrra, þar sem fólk hélt meðal annars á skiltum þar sem sagði að þungunarrof jafngilti barnsmorði. epa/Massimo Percossi

Neðri deild ítalska þingsins samþykkti í gær frumvarp ríkisstjórnar Giorgiu Meloni sem meðal annars heimilar andstæðingum þungunarrofs aðgengi að heilbrigðismiðstöðvum þar sem veittar eru upplýsingar um þjónustuna.

Gert er ráð fyrir að frumvarpið verði einnig samþykkt í efri deild þingsins.

Hægri flokkar á Ítalíu hafa unnið að því síðustu misseri að þrengja að rétti kvenna til þungunarrofs og í sumum héruðum hefur aðgengi að þungunarrofslyfjum verið takmarkað.

Þungunarrof var gert löglegt árið 1978. Meloni hefur heitið því að umræddum lögum verði ekki breytt en samkvæmt umfjöllun Guardian er að verða sífellt erfiðara að nálgast þjónustuna, þar sem mikill fjöldi lækna neitar að framkvæma þungunarrof af siðferðilegum eða trúarlegum ástæðum.

Samkvæmt gögnum heilbrigðisráðuneytisins frá 2021 neita um 63 prósent kvensjúkdómalækna að framkvæma þungunarrof.

Aðstoðarforsætisráðherrann Antonio Tajani segir að þrátt fyrir að það standi ekki til að breyta lögunum um þungunarrof megi ekki gera það ólöglegt að vera á móti þeim. Stjórnarandstæðingar segja lögin um aðgengi andstæðinga þungunarrofs að heilbrigðismiðstöðvunum hins vegar árás gegn frelsi kvenna.

Áður en gengið var til atkvæðagreiðslu sagði Jacopo Coghe, talsmaður Pro Vita, sem eru stærstu samtök andstæðinga þungunarrofs, að samtökin hefðu ekki í hyggju að standa fyrir því að farið væri inn á umræddar heilbrigðismiðstöðvar.

Þær ættu hins vegar að snúa sér að upprunalegum tilgangi sínum; að aðstoða konur við að finna önnur úrræði en þungunarrof.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×