Erlent

Varnar­mála­ráð­herra Ísrael segir „eftirfylgniaðgerðir“ í undir­búningi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Eyðileggingin er gríðarleg í Khan Younis.
Eyðileggingin er gríðarleg í Khan Younis. Getty/Ahmad Hasaballah

Yoav Gallant, varnarmálaráðherra Ísrael, segir „eftirfylgniaðgerðir“ í undirbúningi á Gasa, meðal annars aðgerðir í Rafah. Greint var frá því um helgina að 98. herdeild Ísraelshers hefði yfirgefið Khan Younis til að ná aftur vopnum sínum.

Samkvæmt miðlum í Ísrael eru engar virkar aðgerðir í gangi í suðurhluta Gasa eins og stendur.

Menn hafa hins vegar velt því fyrir sér hvað þetta þýðir fyrir framhaldið; hvort þetta sé til marks um að Ísraelsmenn hyggist beygja sig undir boð Bandaríkjaforseta og stjórnvalda vestanhafs um að láta gott heita.

Orð Gallant gera ekki mikið til að skýra stöðuna en samkvæmt ráðherranum er enn stefnt að því að hreinsa Gasa af liðsmönnum Hamas og uppræta samtökin þannig að þau ógnuðu ekki lengur öryggi íbúa Ísrael.

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur þrýst á Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, að falla frá áformum sínum um áhlaup á Rafah og leita annarra leiða til að ná markmiðum sínum. Erlendir leiðtogar keppast nú um að benda á að mannúðarástandið sé hörmulegt og ekki á það bætandi.

New York Times hefur eftir Osama Asfour, 41 árs íbúa Khan Younis, sem nú hefst við í tjaldi í Rafah, að yfirlýsingar hersins um brotthvarf frá borginni séu ekki hvatning til að snúa aftur. Asfour, sem starfaði á Nasser sjúkrahúsinu áður en hann flúði, segist ekki ætla að spila þannig með líf sitt né fjölskyldu sinnar.

NY Times hefur hins vegar eftir embættismanni í Rafah að einhverjir hyggist snúa aftur til borgarinnar.

John Kirby, talsmaður Hvíta hússins í þjóðaröryggismálum, sagði í gær að það væri erfitt að segja til um hvað brotthvarf 98. herdeildarinnar þýddi. Eftir því sem næst yrði komist stæði aðeins til að hvíla og endurvopna herdeildina eftir fjögurra mánaða átök á svæðinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×