Erlent

Ísraels­menn bregðast við hótunum Biden og opna landa­mærin á ný

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Neyðargögnum rignir yfir Gasa borg í mars síðastliðnum.
Neyðargögnum rignir yfir Gasa borg í mars síðastliðnum. AP/Mahmoud Essa

Skrifstofa Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, hefur greint frá því að öryggisráðuneyti landsins hafi samþykkt áætlun sem miðar að því að auka flæði neyðargagna inn á Gasa.

Áætlunin felur meðal annars í sér tímabundna opnun landamærahliðs milli Ísraels og Gasa sem var eyðilagt í árásum Hamas-liða á byggðir í Ísrael þann 7. október síðastliðinn. Um er að ræða Erez-landamærahliðið, sem er í norðurhluta Gasa og var í mörg ár eina hliðið sem fólk gat farið um til að komast yfir landamærin.

Samkvæmt yfirlýsingu skrifstofu forsætisráherrans verður einnig tekið á móti meira af neyðargögnum í höfninni í Ashdod, sem liggur um það bil 40 kílómetra norður af Gasa. Þá verður einnig greitt fyrir aðstoð frá Jórdaníu gegnum Kerem Shalom, við landamærin í suðurhluta Ísrael.

Í yfirlýsingunni segir að þessi aukna neyðaraðstoð muni koma í veg fyrir mannúðarkrísu sem þegar er uppi á Gasa og tryggja það að hægt verði að halda aðgerðum gegn Hamas áfram og ná þeim markmiðum sem stefnt er að.

Ákvörðuninni hefur verið vel tekið vestanhafs en greint var frá því í gær að Joe Biden Bandaríkjaforseti hefði sagt í samtali við Netanyahu að Ísraelsmenn þyrftu að gera betur í því að varðveita líf almennra borgara og hjálparstarfsmanna til að eiga það ekki á hættu að missa stuðning Bandaríkjamanna.

Ísraelsmenn hafa hins vegar ekki brugðist við hinni kröfu Biden; að þeir gangi til samninga við Hamas og komi tafarlaust á vopnahléi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×