Fótbolti

Sæ­dís ó­vænt með á morgun: „Kom í ljós að það er ekkert að henni“

Sindri Sverrisson skrifar
Sædís Rún Heiðarsdóttir er heil heilsu og klár í slaginn við Pólverja.
Sædís Rún Heiðarsdóttir er heil heilsu og klár í slaginn við Pólverja. Getty/Gerrit van Cologne

Sædís Rún Heiðarsdóttir er mætt aftur í íslenska landsliðið í fótbolta fyrir leikinn við Pólland á morgun, viku eftir tilkynningu KSÍ um að hún væri úr leik vegna meiðsla.

Ísland og Pólland mætast á Kópavogsvelli klukkan 16:45 á morgun, í fyrsta leik í undankeppni EM 2025 í Sviss.

Sædís er eini náttúrulegi vinstri bakvörður íslenska liðsins og hún var að vanda í hópnum sem að Þorsteinn Halldórsson tilkynnti um val á 22. mars. Viku síðar var nafn hennar hins vegar tekið út og ástæðan sögð meiðsli, en þar virðast vinnuveitendur Sædísar hjá Vålerenga í Noregi hafa hlaupið á sig.

„Ég ætla ekkert að fara djúpt í það, en eftir myndatöku hér heima þá kom í ljós að það er ekkert að henni,“ sagði Þorsteinn landsliðsþjálfari á blaðamannafundi í dag.

Gáfu sér að hún væri með sprungu í beini

„Þetta var byggt á upplýsingum að utan. Hún fékk ekki bestu myndgreininguna þar og þeir gáfu sér þar að hún væri með sprungu í beini. Eftir myndatöku hér heima er ljóst að það er ekkert að henni,“ sagði Þorsteinn og undirstrikaði að Sædís gæti spilað gegn Póllandi á Kópavogsvelli á morgun, og gegn Þýskalandi ytra á þriðjudaginn.

„Við höfum svo sem ekki verið með margar örvfættar í hópnum undanfarið. Sædís kom inn í þetta í haust og hefur staðið sig vel, svo hún er til taks á morgun. Það eru allar heilar, allar til taks, svo að ég hef úr 24 leikmönnum að velja á morgun,“ sagði Þorsteinn.

Sædís, sem er aðeins 19 ára, stimplaði sig inn í landsliðið síðasta haust og hefur síðan þá spilað sjö A-landsleiki, eftir að hafa spilað 33 leiki fyrir yngri landslið Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×