Innlent

Bóta­þegar fengu nokkurra ára kröfu frá skattinum um há­nótt

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálstofnunar segir afar leitt að bótaþegar séu að fá fjögurra ára kröfu vegna ofgreiddra bóta. Ástæðurnar  séu m.a. uppfærsla á tölvukerfi og mikið annríki síðustu ár á stofnuninni.
Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálstofnunar segir afar leitt að bótaþegar séu að fá fjögurra ára kröfu vegna ofgreiddra bóta. Ástæðurnar séu m.a. uppfærsla á tölvukerfi og mikið annríki síðustu ár á stofnuninni. Vísir

Ríkissjóður innheimtir nú fjögurra ára skuld vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta. Forstjóri Vinnumálastofnunar segir afar leitt að þetta hafi tekið svona langan tíma. Skýringanna sé að leita í annríki á stofnuninni og nýju tölvukerfi.

Það var um klukkan hálf fimm í fyrrinótt sem ríkissjóðsinnheimtur sendu kröfur á fólk vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta fyrir árið 2020, samkvæmt kröfu sem fréttastofa fékk í hendurnar. 

Tvö hundruð manns þurfa að endurgreiða samtals hundrað milljónir

Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar segir að í flestum tilvikum komi kröfurnar til vegna þess að fólk á atvinnuleysiskrá hafi verið aðrar tekjur samfara atvinnuleysisbótum. 

„Það eru í kringum tvö hundruð manns sem þurfa að endurgreiða um hundrað milljónir króna. Mikið af þessum kröfum eru vegna fjármagnstekna sem fólk var með á þessum tíma þ.e. meðan það fékk bætur. Fólki var kunnugt um þetta á sínum tíma því krafan kom fram á greiðsluseðlum. Við getum ekki ákveðið að gefa eftir ofgreiddar atvinnuleysisbætur. En auðvitað þykir okkur verulega leitt hversu seint þetta er á ferðinni,“ segir Unnur. 

Hún segir að skýringa sé meðal annars að leita í nýju tölvukerfi.

„Það eru margir samverkandi þættir sem urðu til þess að þetta kemur svona seint. Við vorum að skipta út tölvukerfi sem gerði okkur erfitt fyrir og þá hefur verið ofboðslegt annríki frá þessum tíma. Hins vegar stefnum við í að geta sent slíkar kröfur miklu fyrr en í þessu tilviki og ég vona að það takist á þessu ári,“ segir Unnur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×