Íslenski boltinn

„Það hafa ein­hverjir verið erfiðari heldur en ég“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ómar Ingi Guðmundsson fær mjög krefjandi verkefni í sumar að halda HK liðinu í Bestu deildinni.
Ómar Ingi Guðmundsson fær mjög krefjandi verkefni í sumar að halda HK liðinu í Bestu deildinni. Vísir/Hulda Margrét

Baldur Sigurðsson heimsótti HK-inga í nýjasta þættinum af Lengsta undirbúningstímabil í heimi og ræddi Baldur þar meðal annars við þjálfara HK liðsins sem er Ómar Ingi Guðmundsson.

Baldur forvitnaðist aðeins um sýn Ómars Inga á leikmannamál HK-liðsins en HK-liðið hefur lítið sem ekkert bætt við sig leikmönnum á meðan flest önnur lið deildarinnar hafa styrkt fyrir komandi tímabili í Bestu deild karla.

„Þú ert svo mikill HK-ingur. Þú ert fæddur og uppalinn hérna. Ertu að banka nógu fast á dyrnar hjá stjórninni. Ertu að gera nóg til að fá leikmenn,“ spurði Baldur.

„Ég skil þig algjörlega. Ég velti þessu fyrir mér sjálfur og hef átt þessi samtöl í kringum mig. Það er örugglega einhverjum sem finnst það og það hafa einhverjir verið erfiðari heldur en ég hérna,“ sagði Ómar Ingi

„Ég er búinn að alast upp hérna og hef tekið þátt í öllu sem hefur verið í gangi hérna síðustu árin sama hvort það var sem yfirþjálfari, aðstoðarþjálfari eða núna sem meistaraflokksþjálfari,“ sagði Ómar.

„Ég held alveg að það gæti litið þannig út en að sama skapi þá er stjórnin á félaginu þannig að það sé alveg saman hversu fast ég banka þá eru ákveðin gildi hérna sem varða skuldbindingar og kostnað. Menn eru ekki tilbúnir að víkja frá því,“ sagði Ómar.

„Ég held að félagið hafi verið vel rekið og gert samninga sem það hefur staðið við. Félagið stóð mjög vel að leikmannahópnum í Covid til dæmis. Ég held að hérna fái allir sem fái greitt borgað fyrsta hvers mánaðar og aldrei verið neitt vesen því tengt,“ sagði Ómar.

„Ég held að menn vilji hafa það þannig að það sé betra að þen leikmönnum sem eru í leikmannahópnum líði vel og viti að þeir geti treyst á félagið heldur en að bæta við einum leikmann sem þýðir að hálft liðið fari að fá borgað seint og illa,“ sagði Ómar.

Klippa: Ómar: Betra en að hálft liðið fari að fá borgað seint og illa



Fleiri fréttir

Sjá meira


×