Fótbolti

Engin inn­stæða í Tékk­landi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kristall Máni skoraði mark Íslands í dag.
Kristall Máni skoraði mark Íslands í dag. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Íslenska landsliðið skipað leikmönnum 21 árs og yngri beið afhroð í Tékklandi þar sem það mætti heimamönnum í undankeppni EM 2025 í knattspyrnu. Lokatölur 4-1 Tékkum í vil.

Íslenska liðið hafði byrjað undankeppnina ágætlega og var með tvo sigra úr fyrstu þremur leikjum sínum. Þar á meðal var gríðarlega sterkur 2-0 sigur á Tékklandi í fyrstu umferð undankeppninnar.

Það væri nærri uppselt á leik kvöldsins sem fór fram fyrir framan rúmlega 9000 manns á Malšovická-vellinum í Hradec Králové. Þó svo að heimamenn hafi verið talsvert minna með boltann í leiknum þá hefur stuðningsfólkinu verið slétt sama enda vannst öruggur sigur.

Heimamenn byrjuðu af gríðarlegu krafti og eftir aðeins tuttugu mínútna leik var staðan orðin 2-0 Tékklandi í vil. Václav Sejk með fyrra markið og Daniel Fila það síðara. Reyndust það einu mörk fyrri hálfleiks en snemma í síðari hálfleik gerði Christophe Kabongo út um leikinn.

Fila bætti við öðru marki sinu og fjórða marki Tékklands áður en Kristall Máni Ingason minnkaði muninn með marki úr vítaspyrnu á 79. mínútu. Fleiri urðu mörkin ekki og Tékkland vann eins og áður sagði öruggan 4-1 sigur.

Ísland er áfram í 3. sæti riðilsins, nú með sex stig að loknum fjórum leikjum. Wales trónir á toppi riðilsins með 11 stig að loknum sex leikjum á meðan Danmörk er með átta stig að loknum fjórum leikjum. Tékkland er svo með fimm stig og Litáen rekur lestina án stiga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×