Fótbolti

Strákurinn sem Ís­land missti frá­bær í fyrsta leik með Banda­ríkjunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Cole Campbell spilar með Borussia Dortmund og nú fyrir bandaríska landsliðið en ekki það íslenska.
 Cole Campbell spilar með Borussia Dortmund og nú fyrir bandaríska landsliðið en ekki það íslenska. Getty/ Jonathan Moscrop

William Cole Campbell ákvað að hætta að gefa kost á sér í íslensku landsliðin og skipta yfir í bandaríska landsliðið.

FIFA gaf grænt ljós á skiptin og Cole spilaði sinn fyrsta leik með bandarísku landsliði þegar hann hjálpaði nítján ára landsliðinu að vinna England um helgina.

Hinn átján ára gamli Cole skoraði tvö mörk í 3-2 sigri en leikurinn fór fram í Rabat í Marokkó.

Í fyrra markinu fékk hann stungusendingu inn fyrir vörnina og kláraði færið af mikilli yfirvegun. Í seinna markinu þá keyrði hann á bakvörðinn og fíflaði hann áður en hann afgreiddi boltann glæsilega í markið rétt utan markteigsins.

Cole skoraði tvö mörk í sjö leikjum fyrir íslenska sautján ára landsliðið og er þegar búinn að jafna það í fyrsta leik með bandarísku landsliði.

Cole spilaði með FH og Breiðabliki áður en hann fór út en hann spilar nú með unglingaliði Borussia Dortmund. Hann á bandarískan föður en móðir hans er fyrrum landsliðskona Íslands, Rakel Ögmundsdóttir.

Rakel lék tíu A-landsleiki fyrir Ísland og skoraði í þeim sjö mörk.  Hún skoraði einnig þrjú mörk í þremur leikjum fyrir 21 árs landsliðið.

Cole hefur spilað með nítján ára liði Dortmund í vetur og er með sjö stoðsendingar og tvö mörk í sextán leikjum í þýsku deildinni.

Hér fyrir neðan má sjá mörkin hjá Cole.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×