Erlent

Pól­verjar virkja aukinn við­búnað eftir „gríðar­legar“ á­rásir

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Skemmd íbúablokk í úthverfi Kyiv í kjölfar loftárása í vikunni.
Skemmd íbúablokk í úthverfi Kyiv í kjölfar loftárása í vikunni. vísir/vilhelm

Pólski flugherinn hefur virkjað aukinn viðbúnað í kjölfar loftárásarhrinu Rússa í Kyiv höfuðborg Úkraínu og Lviv í austurhluta landsins. Um er að ræða þriðju árásirnar um nótt á fjórum dögum.

Samkvæmt ráðamönnum í Úkraínu og Póllandi er um „gríðarlegar árásir“ að ræða. Aukinn harka virðist hafa færst í átökin á allra síðustu dögum. Hryðjuverkaárásin í Moskvu, sem Vladímír Pútín Rússlandsforseti vill bendla Úkraínu við, verður ekki til þess fallin að draga úr hörkunni. 133 létust í árásinni á tónleikahöll í útjaðri Moskvuborgar, en Úkraínumenn hafa þvertekið fyrir það að tengjast árásinni á nokkurn hátt. Þá hefur Íslamska ríkið lýst yfir ábyrgð á verknaðinum. 

Einungis eru nokkrir dagar síðan Rússar náðu völdum í þorpinu Ivanivske vestur af Bakhmut í Dónetsk héraði í Úkraínu.

Vitali Klitschko borgarstjóri Kyiv beindi því í nótt til íbúa að halda sig í loftvarnarskýlum á meðan árásir stæðu yfir. Hann ítrekaði að loftvarnarkerfi virki. 

Nágrenni borgarinnar Lviv varð einnig fyrir árásum, að sögn landstjórans Maksym Kozytsky. Fyrstu fréttir benda til þess að enginn hafi særst eða látist í árásunum, að sögn talsmanns úkraínska hersins í Kyiv.

Pólski herinn gaf einnig frá sér yfirlýsingu í nótt þar sem fram kom að aukið viðbúnaðarstig hefði tekið gildi vegna árásanna. Væri það  vegna „ákafra árása frá langdrægnum loftárásarbúnaði“. Þá kom síðar fram að Rússar hefðu rofið lofthelgi Póllands í árásunum, sem hafi leitt til aukins viðbúnaðar flughersins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×