Fótbolti

Robin­ho loks hand­tekinn í heima­landinu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mun eyða næstu 9 árum í fangelsi.
Mun eyða næstu 9 árum í fangelsi. Pedro Vilela/Getty Images

Knattspyrnumaðurinn fyrrverandi Robinho var upprunalega dæmdur í fangelsi fyrir nauðgun á Ítalíu árið 2020. Síðan þá hefur hann haldið sig heima fyrir í Brasilíu en hefur nú loks verið handtekinn og mun eyða næstu níu árum í fangelsi.

Robinho lék meðal annars með Manchester City, Real Madríd og AC Milan á ferli sínum ásamt því að leika 100 leiki fyrir landslið Brasilíu. Árið 2020 var hann ákærður fyrir að hluti af hópi manna sem nauðguðu konu á skemmtistað í Mílanó árið 2013.

Robinho áfrýjaði og áfrýjaði en dómurinn stóð alltaf. Hann neitaði hins vegar að yfirgefa Brasilíu og þar sem ekkert gekk að fá hann framseldan til Ítalíu báðu yfirvöld þar í landi þau brasilísku um að fangelsa hann í heimalandinu.

Fyrr í vikunni gekk sú bón í gegn og var Robinho handtekinn á heimili sínu í Santos í gær, föstudag.

Í frétt BBC, breska ríkistútvarpsins, segir að brasilísk yfirvöld hafi fengið mikið hrós fyrir þar sem talið var að Robinho myndi ganga frjáls ferða sinna vegna frægðar síns og frama.

Robinho hefur alltaf haldið fram sakleysi sínu og sagt kynmökin hafa verið með samþykku konunnar. Í frétt BBC kemur ekki fram hversu margir karlmenn voru hluti af hópnauðguninni né hvort aðrir hafi verið dæmdir í fangelsi.


Tengdar fréttir

Alþjóðleg handtökuskipun gefin út á hendur Robinho

Ítölsk yfirvöld hafa gefið út alþjóðlega handtökuskipun á hendur fyrrverandi knattspyrnumannsins Robinho. Þessi fyrrum leikmaður Real Madrid, AC Milan og Manchester City var árið 2017 dæmdur í níu ára fangelsi fyrir hópnauðgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×