Fótbolti

Síðustu áfrýjun vísað frá og Robinho dæmdur í níu ára fangelsi fyrir hópnauðgun

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Robinho hefur verið dæmdur til níu ára fangelsisvistar.
Robinho hefur verið dæmdur til níu ára fangelsisvistar. getty/Dino Panato

Robinho, fyrrverandi leikmaður Real Madrid, AC Milan og brasilíska landsliðsins, er á leið í fangelsi eftir að hæstiréttur Ítalíu staðfesti dóm yfir honum fyrir að naugða konu árið 2013.

Árið 2017 voru Robinho og fimm aðrir Brasilíumenn fundnir sekir um að hafa hópnauðgað 22 ára albanskri konu á skemmtistað. Robinho var dæmdur í níu ára fangelsi fyrir rétti í Mílanó, áfrýjaði en hæstiréttur staðfesti dóminn svo endanlega í gær.

Alls óvíst er þó hvort Robinho fari í fangelsi. Hann er í Brasilíu og stjórnarskráin þar í landi heimilar ekki að borgarar þess verði framseldir. Ítalskir dómstólar geta þó farið fram á að Robinho sitji inni í fangelsi í Suður-Ameríku.

Robinho lagði skóna á hilluna fyrir tveimur árum. Hann lék hundrað leiki fyrir brasilíska landsliðsins og skoraði 28 mörk.

Robinho hóf ferilinn með Santos í heimalandinu en fór til Real Madrid 2005. Þar vann hann spænsku úrvalsdeildina í tvígang áður en hann var seldur til Manchester City. AC Milan keypti Robinho 2010 og varð ítalskur meistari með liðinu ári seinna. Síðustu ár ferilsins lék Robinho í heimalandinu, Kína og Tyrklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×