Erlent

Um 280 börnum rænt í bænum Kuriga í Nígeríu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fólk safnast saman á svæðinu þar sem börnunum var rænt.
Fólk safnast saman á svæðinu þar sem börnunum var rænt. AP

Byssumenn á mótorhjólum hafa rænt yfir 280 skólabörnum í bænum Kuriga í Kaduna í Nígeríu. Nemendurnr höfðu safnasta saman á samkomustað í gær þegar mennirnir mættu vopnaðir á svæðið og tóku börnin með sér og einn kennara.

Nemendurnir eru á aldrinum 8 til 15 ára.

Mannránsgengi hafa rænt hundruðum barna og fullorðinna í Nígeríu síðastliðin ár en dregið hafði úr slíkum atvikum þar til nú. 

Mannránið var staðfest af Uba Sani, ríkisstjóra Kaduna.

Að sögn ríkisstjórans var um 300 börnum rænt en 25 tókst að sleppa.

Vitni sagði stúlku hafa verið skotna í árásinni og þá sagði kennari sem tókst að sleppa að íbúar hefðu freistað þess að koma börnunum til bjargar en verið fældir á brott af byssumönnunum. Einn hefði verið drepinn.

Samkvæmt BBC eiga nær allar fjölskyldur í bænum barn í skólunum sem um ræðir, sem virðast hafa verið tveir, og herinn hefur heitið því að finna þau öll.

Þetta er annað fjöldamannránið sem á sér stað í Nígeríu á aðeins nokkrum dögum en fyrir skömmu var konum og börnum rænt, að því er talið af Boko Haram, þegar þau voru að safna eldivið.

Ekki er talið að tengsl séu á milli þessa atviks og mannránsins í dag.

Stjórnvöld í Nígeríu settu lög árið 2022 til að freista þess að draga úr mannsránum en þau banna fólki meðal annars að greiða lausnargjald. Enginn hefur verið handtekinn á grundvelli laganna hingað til.

Ítarlega frétt um málið má finna á vef BBC.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×