Fótbolti

Skiptir úr ís­lenska lands­liðinu yfir í það banda­ríska

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
William Cole Campbell í leik með Borussia Dortmund í æfingarleik á móti AZ Alkmaar.
William Cole Campbell í leik með Borussia Dortmund í æfingarleik á móti AZ Alkmaar. Getty/Samuel Carreno Gadea

William Cole Campbell hefur ákveðið að feta sömu slóð og Aron Jóhannsson og velja það frekar að spila fyrir bandaríska fótboltalandsliðið en það íslenska.

Cole spilar með nítján ára liði Borussia Dortmund en hann hélt upp á átján ára afmælið sitt í síðasta mánuði.

Faðir hans er Bandaríkjamaður en móðir hans er Rakel Björk Ögmundsdóttir sem skoraði sjö mörk í aðeins tíu landsleikjum fyrir Ísland í upphafi aldarinnar. Cole gat því spilað fyrir báðar þjóðirnar.

Cole æfði hjá unglingaakademíu Atlanta United en kom ungur til FH. Hann lék sinn fyrsta leik með FH aðeins fimmtán ára gamall. Hann spilaði þó aðeins þrjá leiki í efstu deild á Íslandi þar af einn þeirra með Breiðabliki.

Cole gekk til liðs við Dortmund fyrir 2022-23 tímabilið og hefur spilað í unglingaliðum félagsins. Hann er með 3 mörk og 9 stoðsendingar í 22 leikjum með nítján ára liði Dortmund á þessari leiktíð.

Cole hefur skorað 2 mörk í 7 leikjum með íslenska sautján ára landsliðinu en síðasta landsleikinn fyrir Ísland spilaði hann 28. mars í fyrra. Mörkin hans komu í leikjum á móti Finnlandi og Eistlandi.

Bandaríska knattspyrnusambandið staðfesti það í gær að William Cole hafi ákveðið að skipta úr íslenska landsliðinu yfir í það bandaríska. Alþjóða knattspyrnusambandið hefur staðfest skiptin en ESPN segir frá.

Aron Jóhannsson, sem nú spilar með Val, lék tíu leiki fyrir íslenska 21 árs landsliðið en ákvað að skipta yfir í bandaríska landsliðið árið 2013. Hann varð síðan fyrsti Íslendingurinn til að spila á HM þegar hann var í HM-hópi Jürgens Klinsmann á HM í Brasilíu 2014.

Aron skoraði 4 mörk í 19 landsleikjum fyrir bandaríska landsliðið en lék sinn síðasta landsleik þegar hann var 25 ára gamall eða árið 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×