Erlent

Vilja breyta stjórnar­skrár­á­kvæði um störf konunnar inni á heimilinu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Forsætisráðherrann hefur hvatt Íra til að samþykkja breytingarnar á stjórnarskránni.
Forsætisráðherrann hefur hvatt Íra til að samþykkja breytingarnar á stjórnarskránni. epa/Georgi Licovski

Það mun verða skref aftur á bak ef Írar samþykkja ekki breytingar á stjórnarskrá landsins, sem mið að því að uppfæra hana í takt við nútímann.

Þetta sagði Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands, í ræðu í Bucharest á miðvikudag.

Írar ganga á morgun til þjóðaratkvæðagreiðslu um tvær breytingar á stjórnarskránni, sem varða orðalag um „konuna á heimilinu“ og hvernig talað er um fjölskylduna.

Stjórnarskráin er frá 1937 og í henni er meðal annars að finna ákvæði þar sem segir að inni á heimilinu sinni konan störfum og sé þannig stuðningur við ríkið sem sé ómissandi fyrir almannahag. Þannig skuli ríkið sjá til þess að konan sé ekki tilneydd til að sinna störfum á vinnumarkaði sem koma niður á störfum hennar innan heimilisins.

Samkvæmt tillögunni sem liggja fyrir verður ákvæðið tekið út en annað sett inn í staðinn þar sem ríkið er skuldbundið til að viðurkenna það framlag sem felst í umönnun ástvina og freista þess að styðja fólk í þeim störfum.

Hin tillagan varðar skilgreininguna á fjölskyldunni og þar verður sú breyting á að í stað þess að tala um hjónaband sem grunnstoð fjölskyldunnar, þá verður talað um „varanlegt samband“.

Varadkar segir niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar munu sýna hvaða gildi Írar vilja heiðra.

Samkvæmt skoðanakönnunum eru fleiri fylgjandi breytingunum en ekki, en 35 prósent segjast óákveðnir og þá er spáð dræmri kostningaþátttöku.

Guardian greindi frá.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×