Enski boltinn

Guardiola hrósar Haaland fyrir hvað hann er góður að gleyma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erling Haaland fagnar marki sínu fyrir Manchester City á móti Manchester United í gær.
Erling Haaland fagnar marki sínu fyrir Manchester City á móti Manchester United í gær. Getty/Joe Prior

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segir einn af dýrmætum kostum norska framherjans Erling Haaland vera sá hversu góður hann er í því að gleyma strax klúðrum sínum.

Haaland klúðraði algjöru dauðafæri í sigrinum á Manchester United í gær þegar City liðið var marki undir en Norðmaðurinn skoraði síðan þriðja mark City liðsins undir lok leiksins.

Haaland er markahæstur í ensku úrvalsdeildinni með átján mörk en fyrr í vikunni hafði hann skorað fimm mörk í bikarsigri á Luton.

„Þessir frábæru leikmenn sem ég hitti, ég er svo heppinn að hafa verið með nokkra hjá mér, þeir gleyma því um leið ef þeir klúðra færi,“ sagði Pep Guardiola eftir leikinn í gær.

„Þeir gleyma klúðrinu eins fljótt og auðið er. Fótboltamenn. Körfuboltamenn. Þeir klikka allir. Þeir bara brosa og halda áfram eins og Haaland gerði. Hann hefur ótrúlegan hæfileika til að gleyma. Það skilgreinir frábæra leikmenn,“ sagði Guardiola.

Pressan á Haaland er mikil ekki síst vegna þess að hann hefur hækkað ránna með ótrúlegu markaskori sínu. Það er því liggur því meiri frétt ef hann skorar ekki en þegar hann skorar.

Haaland er með 28 mörk í 31 leik í öllum keppnum á þessu tímabili og hefur alls skorað 80 mörk í 84 leikjum fyrir City liðið. Hann er þegar kominn upp í 23. sæti yfir markahæstu leikmenn félagsins frá upphafi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×