Erlent

Ísraels­­menn snið­­gengu samninga­við­ræðurnar í gær

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ísraelsmenn eru ósáttir við að Hamas neiti að afhenda lista yfir þá gísla sem enn eru á lífi og í haldi samtakanna.
Ísraelsmenn eru ósáttir við að Hamas neiti að afhenda lista yfir þá gísla sem enn eru á lífi og í haldi samtakanna. AP/Leo Correa

Ísraelsmenn eru sagðir hafa sniðgengið samningaviðræður um vopnahlé sem fram fóru í Kaíró í gær sökum þess að Hamas-samtökin neita að afhenda lista yfir þá gísla sem enn eru á lífi og í haldi samtakanna.

Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, var ómyrk í máli um stöðu mála í ræðu sem hún hélt þegar hún heimsótti Edmund Pettus-brúnna í Selmu í Alabama, þar sem lögreglumenn börðu niður friðsamleg mótmæli fyrir sex áratugum.

Harris kallaði eftir tafarlausu vopnahléi og sagði Ísraelsmenn verða að tryggja aukna mannúðaraðstoð á Gasa. „Engar afsakanir,“ sagði hún. Opna þyrfti nýjar leiðir inn á svæðið, aflétta óþarfa takmörkunum á aðflutningi neyðargagna, standa vörð um hjálparstarfsmenn og koma aftur á grunnþjónustu.

Þá gagnrýndi hún Ísraela fyrir framgöngu hersins þegar yfir hundrað manns voru drepnir við bifreið með hjálpargögn í síðustu viku. 

„Við sáum hungrað, örvæntingafullt fólk nálgast flutningabifreiðar með neyðargögn til að reyna að tryggja fjölskyldum sínum mat eftir vikur af engri aðstoð í norðurhluta Gasa og þeim var mætt með bysskuskotum og glundroða,“ sagði Harris.

Varaforsetinn sendi hins vegar einnig út skýr skilaboð til Hamas.

„Hamas-liðar segjast vilja vopnahlé. Jæja, það er samkomulag á borðinu. Og eins og við höfum sagt; Hamas þarf að ganga að því samkomulagi. Komum á vopnahléi. Komum gíslunum aftur til fjölskyldna sinna. Og komum aðstoð umsvifalaust til íbúa Gasa.“

Fulltrúar Hamas mættu til viðræðnanna í Kaíró í gær en Reuters hafði eftir palestínskum embættismanni að samkomulag væri ekki í höfn. Ísraelsmenn tjáðu sig ekki um viðræðurnar í gær.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×