Fótbolti

Hákon Arnar og Willum Þór byrjuðu í mikil­vægum sigrum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hákon Arnar byrjaði í sigri dagsins.
Hákon Arnar byrjaði í sigri dagsins. Getty Images/Catherine Steenkeste

Hákon Arnar Haraldsson og Willum Þór Willumsson voru í byrjunarliðum Lille og Go Ahead Eagles þegar bæði lið unnu gríðarlega mikilvæga 1-0 sigra í dag.

Hákon Arnar hóf leik á vinstri kantinum þegar Lille vann Reims 1-0 þökk sé sigurmarki Jonathan David. Hákon Arnar var tekinn af velli á 81. mínútu. Sigurinn þýðir að Lille er nú í 4. sæti með 41 stig, tveimur minna en Brest sem er í 2. sæti en á þó leik til góða.

Willum Þór var í byrjunarliði Go Ahead Eagles þegar liðið vann mikilvægan 1-0 sigur á Waalwijk í Evrópubaráttunni í Hollandi. Willum spilaði allan leikinn á miðju GA Eagles.

Þrátt fyrir að hafa verið iðinn við kolann á þessari leiktíð kom hann ekki að sigurmarkinu að þessu sinni. Það skoraði hinn danski Jakob Breum eftir sendingu samlandi sínum Soren Tengstedt.

Ernirnir eru í 5. sæti með 37 stig að loknum 24 leikjum, fimm stigum á eftir AZ Alkmaar sem á þá leik til góða.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×