Fótbolti

Fagnaði barnalukku kærustunnar með því að stinga boltanum inn á sig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Filippa Angeldal fagnar marki sínu á móti Bosníu en hún fagnaði um leið gleðifréttunum um óléttu kærustu sinnar.
Filippa Angeldal fagnar marki sínu á móti Bosníu en hún fagnaði um leið gleðifréttunum um óléttu kærustu sinnar. Getty/Michael Campanella

Við þekkjum það þegar verðandi feður fagna óléttu konu sinnar með því að fagna marki með því að stinga boltanum inn á sig. Sænska knattspyrnukonan Filippa Angeldahl lék þetta eftir í stórsigri Svía á Bosníu á dögunum.

Filippa Angeldahl og kærasta hennar Megan Brakes eiga von á barni. Þær tilkynntu það fyrr í vetur.

Angeldahl sagði í viðtali við sænska Aftonbladet að hún hafi planað það að fagna barnalukku þeirra með þessum hætti.

Angeldahl skoraði eitt markanna í 5-0 sigri á Bosníu. Sigurinn tryggði Svíum sæti í A-deildinni alveg eins og sigur íslenska liðsins á Serbíu.

„Það var gott að hafa hana í stúkunni og vita af henni nærri sér,“ sagði Filippa Angeldahl. Megan er umboðsmaður íþróttamanna. Þær trúlofuðu sig árið 2022.

„Ég var búin að plana þetta. Það var líka gaman að geta gert þetta á heimavelli fyrir framan okkar stuðningsmenn og fyrir framan fjölskylduna,“ sagði Filippa.

Hún fór síðan til Megan eftir leikinn og fékk koss að launum.

Angeldahl spilar með Manchester City og hefur gert það frá árinu 2021. Þetta var hennar þrettánda landsliðsmark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×