Erlent

Yfir­völd í Transni­stríu biðla til Rússa um að­stoð

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fulltrúaþing Transnistríu samþykkti í gær að biðla til Rússa um aðstoð vegna efnahagslegs „þrýstings“ frá Moldóvu.
Fulltrúaþing Transnistríu samþykkti í gær að biðla til Rússa um aðstoð vegna efnahagslegs „þrýstings“ frá Moldóvu. AP

Bandaríkjamenn segjast fylgjast grannt með þróun mála í Transnistríu, eftir að yfirvöld á sjálfsstjórnarsvæðinu biðluðu til Rússa um „vernd“.

Transnistría er svæði innan Moldóvu sem hefur verið „sjálfstætt“ í þrjá áratugi með stuðningi frá Rússlandi. Þúsundir rússneskra hermanna hafa haft fasta viðverðu á svæðinu frá átökum árið 1992.

Frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu hafa verið uppi áhyggjur um að Rússar notuðu Transnistríu til að sækja fram inn í vesturhluta Úkraínu, í átt að Odessa. 

Fulltrúaþing Transnistríu biðlaði, sem fyrr segir, til Rússa í gær um aðstoð til að standast efnahagslegan „þrýsting“ frá Moldóvu. Vladimir Pútín Rússlandsforseti mun ávarpa rússneska þingið í dag og menn spyrja sig nú að því hvort hann hyggist nota tækifærið til að lýsa yfir stuðningi við Transnistríu.

Stjórnvöld í Moldóvu segja umleitan Transnistríu tilraun til að komast í heimsfréttirnar.

Boðað var til fundarins í Transnistríu í gær eftir að yfirvöld í Moldavíu sögðust myndu rukka fyrirtæki á svæðinu um innflutningsgjöld frá og með janúar. Rússar svöruðu beiðni Transnistríu um aðstoð á þann veg að það væri eitt af forgangsmálum Rússa að standa vörð um landsvæðið.

Matthew Miller, talsmaður utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna, sagði í gær að með tilliti til aukinnar ásækni Rússa í Evrópu fylgdust Bandaríkjamenn náið með þróun mála í Transnistríu og á svæðinu í heild.

Hér má finna ítarlega umfjöllun Guardian.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×