Erlent

Navalní borinn til grafar á föstu­dag

Lovísa Arnardóttir skrifar
Navalní lést í fangelsi þann 16. febrúar. Hann hafði fyrir það verið einn helsti andófsmaður Pútín í Rússlandi.
Navalní lést í fangelsi þann 16. febrúar. Hann hafði fyrir það verið einn helsti andófsmaður Pútín í Rússlandi. Vísir/EPA

Alexei Navalní verður borinn til grafar í Moskvu á föstudag. Það staðfestir talsmaður tengdur honum. Athöfnin fer fram í Borisovskoye kirkjugarðinum í Moskvu eftir kveðjuathöfn sem haldin verður í Maryino hverfi borgarinnar.

Greint var frá því fyrr í vikunni að erfiðlega hefði gengið að finna stað fyrir athöfnina því að sumir hafi neitað þegar þeir komust að því fyrir hvern athöfnin var.

Alexei Navalní lést í fangelsi í Síberíu fyrr í þessum mánuði. Um árabil var hann helsti andstæðingur forseta Rússlands, Vladimír Pútín. Eiginkona Navalní hefur kennt Pútín um dauða hans. Greint var frá því í gær að samkomulag um fangaskipti hafi verið á lokametrunum og hann nálægt því að verða frjáls maður þegar hann lést þann 16. febrúar. 

Lík Navalní var afhent móður hans í upphafi þessarar viku en móðir hans, Ljúdmíla Navalní, sagði í ávarpi eftir andlát hans að rússnesk yfirvöld hefðu ætlað að grafa hann í kyrrþey í kirkjugarði fanganýlendunnar þar sem hann lést. Eftir þrýsting frá fjölskyldunni afhentu rússnesk yfirvöld móður hans lík hans.

Í umfjöllun BBC um útför Navalní kemur fram að fjölskylda hans hafi upprunalega viljað halda útförina á morgun, þann 29. febrúar, en að erfiðlega hafi gengið að fá starfsmenn til að grafa gröfina því að Pútín mun á morgun halda sína árlega ræðu í rússneska þinginu á morgun.

Ivan Zhdanov, talsmaður sjóðs gegn spillingu í nafni Navalní, sagði á samfélagsmiðlinum X að ríkisstjórnin vissi að enginn myndi vilja hlusta á Pútín sama dag og Navalní er borinn til grafar. Þá hvatti hann fólk til að mæta snemma til að geta kvatt Navalní.


Tengdar fréttir

Einn helsti mannréttindafrömuður Rússlands dæmdur í fangelsi

Oleg Orlov, einn fremsti mannréttindafrömuður Rússlands, hefur verið dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi af dómstóli í Moskvu. Hinn sjötugi Orlov var dæmdur fyrir að „vanvirða“ rússneska hersins ítrekað með því að lýsa yfir andstöðu við innrásina í Úkraínu.

Hótuðu að vanhelga lík Navalní

Móðir rússneska andspyrnuleiðtogans Alexej Navalní sem lést á dögunum í fangelsi segist hafa fengið að sjá lík sonar síns og að rússnesk yfirvöld hafi þrýst á sig að halda jarðarför hans bakvið luktar dyr.

Biden kallar Pútín „tíkar­son“ og furðar sig á um­mælum Trump

Joe Biden Bandaríkjaforseti kallaði Vladimir Pútín Rússlandsforseta „brjálaðan tíkarson“ á fjáröflunarviðburði í San Francisco í gær, auk þess sem hann skaut á forvera sinn Donald Trump fyrir að bera sig saman við rússneska andófsmanninn Alexei Navalní.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×