Erlent

Hand­tekin í Ber­lín eftir ára­tugi á flótta

Atli Ísleifsson skrifar
Daniela Klette, sem var á sínum yngri árum virk í Rauðu herdeildinni svokölluðu, var handtekin í Berlín í gær eftir áratugi á flótta.
Daniela Klette, sem var á sínum yngri árum virk í Rauðu herdeildinni svokölluðu, var handtekin í Berlín í gær eftir áratugi á flótta. Þýska lögreglan

Lögregla í Þýskalandi hefur handtekið Danielu Klette, 65 ára konu sem var á árunum áður virk í skæruliðasamtökunum Rauðu deildinni og hefur ásamt tveimur öðrum farið huldu höfði síðan á tíunda áratugnum.

Saksóknari í Þýskalandi segir að Klette hafi verið handtekið Klette í Berlín í gær, en hún er ásamt félögum sínum grunuð um tilraun til morðs og röð vopnaðra rána.

„Við höfum handtekið frú Klette,“ sagði saksóknarinn Koray Freudenberg sem hefur farið með rannsókn á máli Klette, og félögum hennar, þeim Ernst-Volker Staub og Burkhard Garweg.

Í frétt DW kemur fram að þau Klette, Staub, og Garweg séu sögð hafa framið röð vopnaðra rána á árunum 1999 til 2016 til að fjármagna líf sitt á flótta undan réttvísinni.

Fjallað var um rán þrímenninganna í sjónvarpsþætti á dögunum og bárust í kjölfarið á annað hundrað ábendinga frá almenningi um hvað hin grunuðu kynnu að halda til.

Klette, Staub, og Garweg eru sögð hafa tilheyrt því sem hefur verið kallað þriðju kynslóð Rauðu herdeildarinnar, sem einnig hefur verið þekkt sem Baader-Meinhof-samtökin.

Á áttunda og níunda áratugnum stóð Rauða herdeildin fyrir röð hryðjuverkaárása í Vestur-Þýskalandi, meðal annars sprengjuárásir og mannrán. Liðsmenn samtakanna eru grunaðir um að hafa staðið fyrir morð á rúmlega þrjátíu manns, meðal annars á háttsettum lögmönnum og bankamönnum.

Rauða herdeildin leystist upp undir lok tíunda áratugarins og eru engin gögn sem benda til þess að samtökin séu enn virk.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×