Erlent

Rann­saka af­töku á minnst sjö stríðs­föngum

Samúel Karl Ólason skrifar
Rússneskir hermenn, sem sjá má vinstra megin á myndinni, eru sagðir hafa skotið að minnsta kosti sjö úkraínska hermenn sem höfðu gefist upp nærri Bakhmut í austurhluta Úkraínu.
Rússneskir hermenn, sem sjá má vinstra megin á myndinni, eru sagðir hafa skotið að minnsta kosti sjö úkraínska hermenn sem höfðu gefist upp nærri Bakhmut í austurhluta Úkraínu.

Yfirvöld í Úkraínu hafa til rannsóknar myndband sem virðist sýna rússneska hermenn taka minnst sjö úkraínska hermenn sem hafa gefist upp af lífi. Atvikið var fangað á myndband með dróna sem var yfir svæðinu.

Það sýnir úkraínska hermenn skríða upp úr skotgröf, vestur af Bakhmut í austurhluta Úkraínu, og leggjast í jörðina fyrir framan rússneska hermenn. Myndbandið var fyrst birt á netinu á laugardaginn, 24. febrúar.

Myndbandið var birt af einskonar umboðsmanni úkraínska þingsins í dag. Hann sagði ódæðið til rannsóknar og að þegar væri búið að bera kennsl á herdeildina sem rússnesku hermennirnir tilheyra.

Hann sagði einnig að í heild væru nítján mismunandi mál af þessu tagi til rannsóknar í Úkraínu og að þau vörðuðu morð á 45 úkraínskum stríðsföngum.

Tilkynninguna og myndbandið má sjá hér á samfélagsmiðlinum Telegram. Vert er að vara lesendur við því að myndbandið getur vakið óhug.

Nokkrir dagar eru síðan yfirvöld í Úkraínu sökuðu rússneska hermenn um að skjóta særða úkraínska fanga til bana í borginni Avdívka, sem féll nýverið í hendur Rússa.

Sjá einnig: Saka Rússa um að myrða særða stríðsfanga í Avdívka

Rússneskir hermenn hafa einnig birt myndbönd af sér skjóta úkraínska stríðsfanga eða taka þá af lífi með öðrum hætti. Í einu tilfelli birtu rússneskir hermenn myndband af því þegar einn hermaður skar undan bundnum úkraínskum hermanni, áður en hann skaut Úkraínumanninn í höfuðið.

Öðru sinni birtu rússneskir hermenn myndband af því þegar þeir skáru höfuðið af lifandi úkraínskum hermanni.


Tengdar fréttir

Fyrsta Abrams skriðdrekanum grandað nærri Avdívka

Úkraínskir hermenn hafa hörfað frá þorpi í austurhluta Úkraínu, skammt vestur af borginni Avdívka, sem féll nýverið í hendur Rússa eftir gífurlega harða bardaga frá því í október. Þaðan hörfuðu hermenn til þorpsins Lastochkyne og hafa þeir nú hörfað lengra til vesturs.

Ungverska þingið samþykkir inngöngu Svía

Ungverska þingið hefur samþykkt lög sem heimila inngöngu Svía í Atlantshafsbandalagið, NATO, en Ungverjar eru síðastir til þess að samþykkja inngönguna.

Greinir í fyrsta sinn opin­ber­lega frá mann­falli

Um það bil 31 þúsund hermenn hafa fallið í átökum eftir að innrás Rússa hófst í Úkraínu. Frá því greindi forseti landsins, Volodmír Selenskíj, á viðburði í Kænugarði í dag þar sem þess var minnst að tvö ár eru frá upphafi stríðsins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×