Erlent

Hyggst sam­þykkja NATO um­sókn Svía í dag

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Victor Orban forsætisráðherra Ungverjalands.
Victor Orban forsætisráðherra Ungverjalands. EPA-EFE/FILIP SINGER

Ungverska þingið hyggst taka til atkvæðagreiðslu umsókn Svía í Atlantshafsbandalagið (NATO) í dag. Viktor Orbán forsætisráðherra Ungverjalands segir umsóknina verða samþykkta. Ungverjaland er síðasta landið til að samþykkja umsóknina.

Í umfjöllun sænska ríkisútvarpsins er vitnað til ræðu ungverska forsætisráðherrans á þinginu frá því fyrr í dag. Hann segir aðild Svía styrkja öryggi Ungverja. Greidd verða atkvæði um umsókn Svía síðdegis í dag.

Svíar sóttu um inngöngu í NATO í febrúar í fyrra, vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Stjórnvöld í Tyrklandi og Ungverjalandi drógu bæði lappirnar í að samþykkja umsókn Svía, þó umsókn Finna, sem sóttu um á svipuðum tíma, hafi verið samþykkt af báðum ríkjum í apríl í fyrra.

Tyrkir samþykktu umsóknina loksins í janúar eftir að sænsk stjórnvöld höfðu fallist á kröfur landsins um afhendingu á meintum uppreisnarmönnum Kúrda sem tyrknesk stjórnvöld hafa haft á lista yfir þá sem þau kalla hryðjuverkamenn.

Orban og félagar meðal ungverskra stjórnvalda hafa verið hliðhollari Rússum en önnur stjórnvöld innan Evrópusambandsins. Þannig voru ungversk stjórnvöld einnig þau síðustu til að samþykkja aukinn stuðning til Úkraínu vegna innrásar Rússlands í landið.

Gerðu vopnakaupasamning fyrir helgi

Hefur sænska ríkisútvarpið haft eftir sérfræðingi í málinu að það sæti furðu að Ungverjar hafi dregið lappirnar eins lengi í málinu og raun ber vitni. Haft er eftir Viktori Orban forsætisráðherra Ungverjalands að ný samþykktur samningur um vopnasölu á milli landanna hafi vissulega haft áhrif.

Greint var frá því á föstudag að ungversk og sænsk stjórnvöld hefðu gert með sér samninga um kaup fyrrnefndra stjórnvalda á fjórum Saab orrustuþotum frá Svíþjóð. Ulf Kristersson forsætisráðherra Svíþjóðar fagnaði samningnum.

Hefur Viktor Orban sagt að með samningum hafi tekist að endurskapa traust á milli landanna. NATO snúist þegar hólminn er komið alfarið um traust.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×