Erlent

Skaða­bóta­kröfu konu vísað frá eftir að hún sigrar jóla­tréskast­keppni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Dómarinn sagði jólatréð hafa verið stórt og augljóst að staðhæfingar Grabska væru ýktar.
Dómarinn sagði jólatréð hafa verið stórt og augljóst að staðhæfingar Grabska væru ýktar. Getty

Dómstóll í Limerick á Írlandi hefur vísað frá máli konu sem krafði tryggingafélag sitt um 650 þúsund pund vegna meiðsla sem hún hlaut í bílslysi. Dómarinn tók ákvörðunina eftir að hafa séð mynd af konunni kasta jólatré.

Kamila Grabska, 36 ára, sagðist hvorki hafa getað unnið né leikið við börnin sín í fimm ár vegna meiðsla á hálsi og baki sem hún hlaut í bílslysi árið 2017. Höfðaði hún mál á hendur tryggingarfélagi sínu til að fá bætur greiddar út vegna meintrar örorku.

Dómarinn Carmel Stewart sá sér hins vegar ekki annað fært en að vísa kröfunni frá eftir að hafa séð mynd sem dagblað birti af Grabska að kasta jólatré, í jólatréskastkeppni sem haldin var í fjáröflunarskyni í janúar árið 2018. 

Grabska sigraði í kvennaflokki keppninnar.

„Þetta er mjög stórt, lifandi jólatré og því er kastað af henni af miklum fimleika,“ hafði Irish Independent eftir dómaranum. „Ég er hræddur að ég geti ekki annað en komist að þeirri niðurstöðu að staðhæfingar hennar hafi verið algjörlega ýktar. Á þeirri forsendu hyggst ég vísa kröfunum frá.“

Grabska hafði haldið því fram að hún hefði ekki getað lyft þungum pokum án þess að upplifa mikinn sársauka. Hún hefði neyðst til að segja upp starfinu sínu og þiggja örorkubætur.

Krafan á hendur tryggingafélaginu náði til tapaðra tekna en Grabska hafði einnig haldið því fram að hún ætti erfitt með að fara fram úr rúminu suma dag og að eiginmaður hennar þyrfti að færa henni lyfin hennar.

Um myndina sagði Grabska að hún hefði freistað þess að lifa eðlilegu lífi og hefði verið kvalin þrátt fyrir að vera brosandi á myndunum sem voru birtar frá keppninni.

Það bætti hins vegar ekki úr skák að í dómsal var einnig birt myndskeið þar sem Grabska sást þjálfa hundinn sinn í um klukkutíma. Dómarinn sagði hegðun hennar þannig í engu samræmi við staðhæfingar hennar.

Guardian greindi frá.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×