Íslenski boltinn

Breiða­blik og Breiða­blik með örugga sigra í kvöld

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rakel Hönnudóttir setti óvænt á sig markmannshanska í kvöld og stóð vaktina með prýði.
Rakel Hönnudóttir setti óvænt á sig markmannshanska í kvöld og stóð vaktina með prýði. VÍSIR/VILHELM

Karla- og kvennalið unnu leiki kvöldsins í Lengjubikarnum í fótbolta örugglega.

Karlarnir unnu einstaklega þægilegan 5-0 sigur á Gróttu sem leikur í Lengjudeildinni á næstu leiktíð á meðan Blikar vonast til að berjast á toppi Bestu deildarinnar. Gamla brýnið Kristinn Steindórsson fór hreinlega á kostum í kvöld og skoraði þrennu á aðeins 13 mínútna kafla.

Blikar leiddu með þremur mörkum í hálfleik og bættu við tveimur mörkum á fimm mínútna kafla í síðari hálfleik. Dagur Örn Fjeldsted með fyrra og Damir Muminovic það seinna. Lokatölur 5-0 Blikum í vil.

Breiðablik hefur nú unnið tvo af þremur leikjum sínum í riðli 1 í A-deild. Á sama tíma er Grótta á botninum eftir að fá á sig 10 mörk í þremur leikjum.

Kvennalið Breiðabliks átti ekki í vandræðum með Selfoss. Það vakti athygli að Rakel Hönnudóttir, fyrrverandi landsliðskona, stóð vaktina í marki Breiðabliks en hún spilar vanalega á miðjunni.

Breiðablik, sem reikna má að verði í toppbaráttu Bestu deildarinnar í sumar, fór nokkuð létt með Selfyssinga sem leika í Lengjudeildinni eftir fall úr þeirri Bestu síðasta haust.

Barbára Sól Gísladóttir kom Blikum yfir snemma leiks en það reyndist eina mark fyrri hálfleiks. Í þeim síðari bættu Margrét Lea Gísladóttir, Vigdís Lilja Kristjánsdóttir og Birta Georgsdóttir við einu marki hver og lokatölur 4-0.

Breiðablik hefur unnið báða leiki sína í riðli 1 í A-deild. Selfoss hefur hins vegar tapað báðum sínum leikjum og fengið á sig átta mörk.

Þá gerðu Afturelding og Leiknir Reykjavík 3-3 jafntefli í riðli 4 í A-deild.. Elmar Kári Enesson Cogic skoraði öll mörk Aftureldingar og er greinilega enn í sömu markaskóm á síðustu leiktíð þar sem hann skoraði 17 mörk í 24 leikjum. Andi Hoti skoraði tvö fyrir Leikni R. og Omar Sowe eitt.

Leiknir er með 5 stig í 2. sæti riðils 4 að loknum þremur leikjum á meðan Afturelding er í 4. sæti með fjögur stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×