Erlent

Vin­sæll á­hrifa­valdur dæmdur fyrir að beita eigin börn of­beldi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Franke var með 2,3 milljón fylgjendur á YouTube.
Franke var með 2,3 milljón fylgjendur á YouTube.

Sex barna móðir, sem öðlaðist vinsældir og frægð fyrir að deila uppeldisráðum á YouTube-rás sinni, hefur verið dæmd í fjögurra til 60 ára fangelsi fyrir illa meðferð á börnum.

Ruby Franke, 42 ára, var handtekin í borginni Ivins í Utah í Bandaríkjunum í ágúst síðastliðnum eftir að vannærður 12 ára sonur hennar flúði heimili Jodi Hildebrant, eiganda lífstílsfyrirtækis og samstarfskonu Franke, og bað nágranna um að gefa sér vatn og brauð.

Drengurinn var með djúps ár og hafði verið bundinn niður með teipi.

Ein dætra Franke fannst við leit á heimili Hildebrant og reyndist í svipuðu ástandi og bróðir hennar. Eftir að Franke var handtekin deildi elsta dóttir hennar, Shari Franke, mynd á Instagram af lögregluþjónum með myndatextanum: „Loksins“.

Franke og Hildebrant voru báðar ákærðar fyrir að hafa beitt börn Franke ofbeldi og hlaut Hildebrant sama dóm og Franke. Báðar hlutu fjóra dóma og refsingu upp á eitt til fimmtán ár en það verður undir nefnd um reynslulausn komið hvenær þær verða látnar lausar.

Franke í dómsal í desember.AP/St. George News/Ron Chaffin

Við ákvörðun refsingarinnar bað Franke börn sín afsökunar og sagðist hafa talið að „myrkur væri ljós og að rétt væri rangt“. Hún myndi gera hvað sem er fyrir þau en hefði tekið allt frá þeim sem var „mjúkt og öruggt og gott“.

Við meðferð málsins hafði Franke freistað þess að koma sökunni yfir á Hildebrant og sagst vera undir áhrifum hennar. Hildebrant sagðist óskað þess að börnin yrðu heil andlega og líkamlega.

Uppeldisaðferðir Franke höfðu vakið áhyggjur í nokkurn tíma áður en hún var handtekinn og nokkrir 2,3 milljóna fylgenda hennar gert yfirvöldum viðvart.

Í einu myndskeiðanna sáust Franke og eiginmaður hennar til að mynda tilkynna tveimur yngstu börnunum að þau fengju engar jólagjafir frá jólasveininum, þar sem þau væru sjálfselsk og hefðu ekki brugðist rétt við refsingum sem þeim var úthlutað, sem fólust meðal annars í að missa úr skóla og þrífa heimilið.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×