Enski boltinn

Arf­taki Hodg­son kynntur til leiks rúmum tveimur tímum fyrir leikinn mikil­væga

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Nýr þjálfari Crystal Palace.
Nýr þjálfari Crystal Palace. EPA-EFE/FILIP SINGER

Þrátt fyrir að það sé leikur í kvöld hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Crystal Palace þá hefur athyglin öll verið á skrifstofu félagsins. Nýr þjálfari hefur verið tilkynntur en fyrr í dag var staðfest að Roy Hodgson væri hættur með liðið.

Fréttir bárust af því fyrir helgi að Palace ætlaði að reka Hodgson eftir slakt gengi liðsins en síðan bárust fréttir af því að hann hefði veikst skyndilega á æfingasvæðinu. Hodgson, sem er orðinn 76 ára gamall, var fluttur á sjúkrahús og eftir það hefur verið beðið eftir næstu skrefum hjá forráðamönnum Crystal Palace.

Liðið er í 16. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og mætir Everton í sannkölluðum sex stiga leik í kvöld. Það kom því eilítið á óvart þegar það var staðfest fyrr í dag að Hodgson yrði ekki áfram með liðið. Ef til vill kom það meira á óvart að nýr þjálfari var tilkynntur rétt rúmum tveimur klukkustundum fyrir leik.

Sá heitir Oliver Glasner og kemur frá Austurríki. Hann er töluvert yngri en Hodgson en Glasner verður fimmtugur síðar á árinu. Hann gerði góða hluti með LASK Linz í Austurríki áður en hann tók við þýsku félögunum Wolfsburg og Eintracht Frankfurt.

Hjá Frankfurt vann hann Evrópudeildina og kom liðinu í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu á síðustu leiktíð en ákvað að segja starfi sínu lausu eftir slakan síðari hluta síðasta tímabils. Hann er nú mættur í ensku úrvalsdeildina og fær það verðuga verkefni að halda Crystal Palace í deildinni.

Palace heimsækir Everton í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 20.00 og verður í beinni textalýsingu á Vísi. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×