Enski boltinn

Crystal Palace stað­festir að Roy Hodgson sé hættur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roy Hodgson var elsti knattspyrnustjóri ensku úrvalsdeildarinnar.
Roy Hodgson var elsti knattspyrnustjóri ensku úrvalsdeildarinnar. Getty

Roy Hodgson er hættur sem knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Crystal Palace en Lundúnafélagið hefur staðfest þetta á miðlum sínum.

Fréttir bárust af því fyrir helgi að Palace ætlaði að reka Hodgson eftir slakt gengi liðsins en síðan bárust fréttir af því að hann hefði veikst skyndilega á æfingasvæðinu. 

Hodgson, sem er orðinn 76 ára gamall, var fluttur á sjúkrahús og eftir það hefur verið beðið eftir næstu skrefum hjá forráðamönnum Crystal Palace.

Liðið er í sextánda sæti ensku úrvalsdeildarinnar og hefur á síðustu vikum dregist niður í fallbaráttuna.

Samkvæmt frétt á heimasíðu Crystal Palace hefur Hodgson ákveðið að segja starfi sínu lausu og gefa félaginu tækifæri til að finna annan mann í hans stað.

Hodgson hefur stýrt Crystal Palace liðinu í 200 leikjum og á sex tímabilum.

Paddy McCarthy og Ray Lewington munu stýra liðinu á móti Everton á Goodison Park í kvöld.

„Þessi klúbbur er mér mjög kær og skiptir mig miklu máli,“ sagði Roy Hodgson í fréttatilkynningu Crystal Palace. Oliver Glasner, fyrrum stjóri þýska félagsins Eintracht Frankfurt, þykir líklegastur til að taka við starfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×